• Mannlíf
  • Áhugaverðir staðir

Áhugaverðir staðir

Meleyri
Falleg strönd fyrir innan Breiðdalsvík, skemmtileg gönguferð fyrir fjölskylduna með ríkulegt fuglalíf og skemmtilega náttúru. Ef heppnin er með má sjá bregða fyrir sel sem hefur lætt sér nær landi. Hér er upplagt að njóta náttúrunnar eða bara byggja sandkastala.

Jórvíkurskógur
Jórvíkurskógur er glæsilegt útvistarsvæði inn í Breiðdal. Margar góðar gönguleiðir eru um svæðið og yndislegt opið svæði. Skógrækt ríkisins fékk landið að gjöf þegar bú lagðist þar af. Enn standa gömlu bæirnir sem minnisvarði um gamla tíma og framsækni ábúenda má sjá á þeim árangri í skógrækt sem þar hefur náðst.

Beljandi
Beljandi er án efa með mikilfenglegri fossum í Breiðdalnum. Fossinn myndast neðarlega í Breiðdalsánni rétt fyrir neðan bæinn Brekkuborg og sómir sér vel í ánni sem talin er ein fallegasta laxveiðiá landsins. Stuttur spölur er frá veginum (964( að fossinum en vel þess virði.

Vitar
Tveir fallegir vitar, annar staðsettur við höfnina á Breiðdalsvík og hinn á Streitishvarfi. Við Streitishvarf er einnig frábært útivistarsvæði með stikaðri gönguleið þar sem hægt er að sjá allt frá gömlum hleðslum, til bergganga og sjóorfinn helli.

Flaga, Flögufoss
Flögufoss er hæsti foss í Breiðdal um 60 m. Fossinn er í Flöguá sem rennur um Flögudal. Dalurinn sá afmarkast af Smátindum og Slötti. Frá vegi er stutt og létt gönguleið að fossinum.

Breiðdalseldstöð
Breiðdalseldstöðin er forn megineldstöð í Breiðdal og Berufirði, sem enski jarðfræðingurinn George P. L. Walker hefur rannsakað ítarlega ásamt öðrum slíkum á Austurlandi. Þessi eldstöð er prýdd stórum rýólítinnskotum með tignarlegum og sérstæðum tindum, Flögutindi í Breiðdal, Smátindum, Röndólfi , Sletti og Stöng. Suðurfjöll Breiðdals eru sérstaklega litskrúðug og berglögin óregluleg með miklum gjóskumyndunum.