• Mannlíf
  • Um staðinn

Breiðdalsvík

Kauptúnið Breiðdalsvík stendur við samnefnda vík. Byggðin liggur í sveig fyrir botni Selnesbótar sem skerst norðaustur úr sjálfri Breiðdalsvíkinni. Ofan við byggðina eru Hellur, sem byrgja sýn inn í Breiðdalinn en vel sést til hafs frá allri byggðinni. Byggðin á Breiðdalsvík er ekki gömul. Gránufélagið lét reisa þar vörugeymslu um 1889 og árið 1896 reisti Brynesverslun á Seyðisfirði hús efst á Selnesi. Það brann tíu árum síðar en nýtt verslunarhús var reist í staðinn og er það elsta hús þorpsins og kallast Gamla kaupfélagið. Hröð uppbygging hófst á síldarárunum og má segja að blómaskeið Breiðdalsvíkur hafi verið á árunum frá 1965 til 1990. Frá þeim tíma hefur orðið talsverð fólksfækkun og búa nú um 140 manns í þorpinu. Göngutúrinn er við allra hæfi og er bæði fróðlegur og skemmtilegur.

Gamla kaupfélagið

gamlakaupfelagidGamla kaupfélagið er elsta húsið á Breiðdalsvík, reist í september 1906 til að taka við af verslunarhúsi Brynesverslunar sem brunnið hafði þá um vorið. Húsið gegndi ýmsum hlutverkum á 20. öldinni. Auk þess að vera kaupfélag þjónaði það sem íbúðarhús, mötuneyti og verbúð svo eitthvað sé nefnt. Á árunum fyrir 1990 hafði starfsemi í húsinu þó legið niðri um nokkurt skeið og útlit þess var orðið heldur betur hrörlegt. Fáum þótti húsið vera þorpinu til sóma og nefna má að þegar kviknaði í því á áttunda áratugnum fengu slökkviliðsmennirnir víst lítið hrós fyrir að bjarga því frá eyðileggingu í bruna.

Að lokum var ákveðið að rífa húsið en nokkrir einstaklingar komu í veg fyrir það með samstilltu átaki. Í framhaldinu var félagið Gamla kaupfélagið stofnað sem, með hjálp Húsafriðunarnefndar ríkisins, sá til þess að ráðist var í það mikla verk að gera húsið upp. Vísast geta allir verið sammála um að nú er Gamla kaupfélagið hin mesta bæjarprýði og með fallegri húsum á Breiðdalsvík.

Strax frá því að hugmyndir kviknuðu um að bjarga Gamla kaupfélaginu veltu menn vöngum yfir því hvaða hlutverki húsið skyldi gegna til að þjóna Breiðdælingum sem best. Grunnhugmyndin var þó að þar mætti væntanlega kynnast sögu Breiðdals og að húsið yrði miðstöð menningar og þekkingar í víðum skilningi. Margir vildu einnig að minnst yrði Dr. Stefáns Einarssonar, málvísindamanns sem ólst upp á Höskuldsstöðum í Breiðdal, og verka hans. Síðast kom fram sú hugmynd að á setrinu mætti gera jarðfræðingnum Dr. George P. L. Walker og jarðfræðirannsóknum hans á Austfjörðum skil. Þessar hugmyndir mynda nú hinar þrjár stoðir Breiðdalsseturs sem eru saga, málvísindi og jarðfræði. Gestir og heimamenn í Breiðdal eru hvattir til að kynna sér áhugaverða starfsemi Breiðdalsseturs í Gamla kaupfélaginu. Þar má líka fræðast um plánetustíginn sem liggur þaðan og upp í fjall.

Meleyri

Ákaflega falleg og skemmtileg sandströnd er á Meleyri innan við þorpið í átt að Breiðdalnum. Fíngerður sandurinn er fyrirtaks byggingarefni í sandkastala og á góðum dögum má busla í sjónum enda aðgrunnt og þægilegt að ganga berfættur í sandinum. Mikið fuglalíf er á Meleyrinni og þarna má skemmta sér daglangt.