5. fundur 2016

Fimmti fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 haldinn föstudaginn 22. apríl 2016. Hann hófst kl. 16:30 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson, Helga Hrönn Melsteð. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri. Á fundinn kom Magnús Jónsson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og fór yfir ársreikning Breiðdalshrepps fyrir 2015, en að umræðu um ársreikning lokinni yfirgaf Magnús fundinn.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Ársreikningur Breiðdalshrepps 2015 fyrri umræða.

Magnús Jónsson löggiltur endurskoðandi frá KPMG mætti á fundinn undir þessum lið og fór yfir ársreikninginn og svaraði spurningum fundarmanna. Að umræðum loknum var ársreikningi vísað til síðari umræðu.

2. Brothættar byggðir, verkefnisstjóri lætur af störfum

Oddviti og verkefnastjóri kynntu að Bjarni Kr Grímsson verkefnisstjóri hefur sagt upp starfi sínu og lætur af störfum 15. maí nk. Verið er að kanna kosti í stöðunni og verkefnisstjórn Brothættra byggða fundar nk. mánudag, þar sem framhaldið verður rætt. Nokkur umræða varð um framhaldið og munu fulltrúar Breiðdælinga í verkefninu taka mið af henni við afgreiðslu mála.

3. Áform um Upplýsingamiðstöð á Breiðdalsvík í sumar

Verkefnisstjóri kynnti hugmynd um að opna upplýsingamiðstöð á Breiðdalsvík í sumar og hefur rætt við Kvenfélagið Hlíf um afnot af Lækjarkoti fyrir starfsemina. Fáist styrkur við verkefnið eru menn sammála um að hafa opna upplýsingamiðstöð sem opin verður í sumar. Breiðdalshreppur leggur fram 250 þús til stuðnings verkefninu, sem tekið er af lið 13-9191.

4. Málefni Leikskólans Ástúns

Rætt var um flutning leikskólans í framhaldi af umræðum á síðasta fundi. Ákveðið var að fresta flutningi að sinni, vegna breyttra aðstæðna, en staðan verður endurmetin síðar.

5. Greint frá fundaferð fulltrúa Breiðdalshrepps til Reykjavíkur 18. 4.

Oddviti og verkefnastjóri greindu frá fundum í Reykjavík sl. mánudag. Fyrst var fundað með forstöðumanni Jöfnunarsjóðs Guðna Geir Einarssyni , starfsmanni EmFS Eiríki Benónýssyni og þeim Stefaníu Traustadóttur og Hermanni Sæmundssyni skrifstofustjóra frá Innanríkisráðuneytinu. Farið var yfir árangur af samningi um fjármál Breiðdalshrepps og fleiri þætti sem snerta þann samning. Flestir þættir samkomulagsins eru vel á veg komnir, en ráðuneytismenn lögðu áherslu á að ljúka bæri þeim liðum, sem enn hafa lítið verðið ræddir.
Næst var fundað með Eygló Harðardóttur velferðarráðherra og Bolla Bollasyni settum ráðuneytisstjóra , einkum um framlög úr Varasjóði húsnæðismála ef til sölu á íbúðum í eigu Breiðdalshrepps kemur. Í kjölfar fundarins barst bréf frá Bolla: „ Í framhaldi af fundi okkar í gær ræddi Eygló við Ólöfu Nordal og í framhaldinu var ég í sambandi við Hermann í IRR vegna málsins. Við vorum sammála um að ganga í ykkar mál. Við Hermann munum hittast í næstu viku og ég verð í sambandi við ykkur eftir þann fund“.
Eftir hádegið var fundað með Sigurði Áss Grétarssyni framkvæmdastjóra hafnasviðs Vegagerðarinnar. Rætt var um viðgerð á brimvarnagarði, sem mikilvægt er að hraða sem kostur er. Einnig var farið yfir möguleika á uppgjöri vegna flotbryggju frá 2010, sem Breiðdalshreppur fjármagnaði að fullu á sínum tíma, en ekki hefur tekist að fá hlut ríkisins greiddan, ræddar voru hugsanlegar leiðir til að leysa þetta gamla mál og verður látið á það reyna.

6. Umsókn um leyfi til að halda hunda á Breiðdalsvík, Þorgils Haukur Gíslason og Elís Pétur Elísson

Samþykkt að veita Þorgils leyfi til að halda Samojedhundinn Astro að Sólbakka 11 og Elís Pétur fær leyfi fyrir Labradortíkinni Pílu.

7. Önnur mál

a) Fjármögnun á brú yfir Hnausá
Oddviti sótti um styrk í styrkvegasjóð vegna viðgerðar á brúnni og einnig til viðbragðshóps forsætisráðherra, en þaðan fékkst ekki fjárveiting í þetta verk. Lögð verður áhersla á að gera við brúna sem fyrst og haft samráð við Vegagerðina vegna verksins.

b) Fjárveiting vegna tjóns af völdum óveðurs 30.12. 2015
Oddviti kynnti afgreiðslu Ríkisstjórnar Íslands frá 15. 4. sl en hún ákvað, að tillögu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, að veita Breiðdalshreppi 13,7 millj króna fjárstyrk til að mæta óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum þeirra vegna brýnustu viðbragða og framkvæmda í kjölfar óveðursins og sjávarflóða í lok síðasta árs og vegna. Auk þess fékk Vegagerð ríkisins fjármagn til að gera við vegi og brimvarnargarða, m.a. á Breiðdalsvík. Stefnt er að því að hefja viðgerð við brimvarnagarð eins fljótt og kostur er og eru starfsmenn siglingasviðs Vegagerðarinnar að undirbúa viðgerð. Stefnt verður að viðgerð í sumar ef nokkur kostur er, Breiðdalshreppur ber 10 % kostnaðar, heildarkostnaður var metinn á 30 milljónir.

c) Fundur með fulltrúum Vegagerðarinnar á Reyðarfirði

Oddviti hefur óskað eftir að fulltrúar Vegagerðarinnar komi á fund með sveitarsjórn og tók Sveinn Sveinsson vel í það. Rætt var um að funda í næstu viku ef tök væru á. Nánar tilkynnt síðar.

d) Tjaldsvæðið á Breiðdalsvík

Verkefnisstjóra falið að fylgja málinu eftir í samræmi við umræðu á fundinum.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 19:10
Fundargerð ritaði Hákon Hansson