9. fundur 2016

Níundi fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 var haldinn mánudaginn 4. júlí 2016. Hann hófst kl. 17:30 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson, Helga Hrönn Melsteð boððaði forföll með skömmum fyrirvara, í stað hennar mætti Helga Svanhvít Þrastardóttir varamaður. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Kosning oddvita og varaoddvita

Úr 13. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011

Kjörtímabil oddvita og varaoddvita er hið sama og sveitarstjórnar nema sveitarstjórn ákveði annað. Sama segir í 7. grein samþykkta um stjórn Breiðdalshrepps og fundarsköp sveitarstjórnar.

Því er um mistök í fundarboði að ræða og þessi liður er tekinn af dagskrá.

2. Fjögurra mánaða uppgjör (verður lagt fram á fundinum)

Farið var yfir 4 mánaða uppgjör fyrir Breiðdalshrepp sem lagt var fram og kynnt á fundinum. Verkefnastjóri fór yfir einstaka liði og fór yfir þá þætti sem skekkt geta niðurstöðuna. Þar er fyrst og fremst að ræða tekjuliði sem ekki koma fram jafnt allt árið heldur einkum á síðari hluta ársins. Útlit er fyrir að fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 standist að mestu. Sveitarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þess að halda öllum útgjöldum í lágmarki.

3. Svæðisáætlun, tilnefning fulltrúa

Í framhaldi af umræðum um málið á 7. fundi samþykkir sveitarstjórn tillögu starfshóps um svæðisskipulag sem send var til allra sveitarfélagaá Austurlandi. Stjórn SSA hefur einnig óskað eftir tilnefningum um tvo fulltrúa frá hverju sveitarfélagi til setu í svæðisskipulagsnefnd. Sú nefnd mun m.a. ákveða forgangsröðun þeirra verkefna sem tíunduð eru í tillögu starfshópsins og starfa eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn samþykkir að tilnefna Sif Hauksdóttur og Hákon Hansson í svæðisskipulagsnefnd.

4. Aðalskipulag

Rætt var um mikilvægi þess að hraða vinnslu aðalskipulags fyrir Breiðdalshrepps og að fá fulltrúa hjá Teiknistofu arkitekta til að koma austur til fundar við sveitarstjórn strax að sumarleyfum loknum.

5. Umhverfismál á Breiðdalsvík

Oddviti fór yfir stöðu umhverfismála í Breiðdalshreppi, einkum á Breiðdalsvík og sýndi einnig myndir. Sveitarstjórn lýsir yfir miklum vonbrigðum með að þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um úrbætur sé umgengni enn víða verulega ábótavant á Breiðdalsvík. Enn á ný er skorað á fyrirtæki sem þetta á við um að bæta umgengni nú þegar. Þá eru þeir íbúar sem geyma númerslausar bifreiðir og annað rusl á og við lóðir sínar beðnir um að fjarlægja þær nú þegar. Það er til vansa að ekki skuli takast að bæta umgengni frá því sem nú er. Íbúar eru einnig hvattir til að halda lóðum sínum snyrtilegum og slá þær reglulega.

6. Viðbótarsamningur við ráðningarsamning verkefnastjóra

Oddviti fór yfir viðbótarsamning við ráðningarsamning verkefnastjóra sveitarstjórnarmála. Samningurinn gildir frá 1. júlí 2016 og var hann samþykktur samhljóða, en málið hefur áður verið rætt í sveitarstjórn.

7. Ljósleiðaraverkefnið

Gunnlaugur og Hákon sátu nýlega fund um ljósleiðaravæðingu í Breiðdalshreppi, þar sem Karl Hálfdánarson frá Radíóveri í Garðabæ fór yfir áætlun sem hann hefur unnið um tengingu ljósleiðara á alla bæi í dreifbýli í Breiðdal. Fundurinn var áhugaverður og fagnar sveitarstjórn framtaki Karls sem einnig hefur átt í viðræðum við önnur sveitarfélög á Austurlandi. Í morgun barst svo óformlegt minnisblað frá Fjarskiptasjóði sem þarf að skoða áður en haldið verður áfram með verkefnið. Sú áhersla sem lögð er á útboðsskyldu getur flækt stöðu lítilla sveitarfélaga. Sveitarstjórn tekur undir með stjórn SSA og styður eindregið eftirfarandi bókun frá síðasta fundi stjórnar SSA:

„Stjórn SSA leggur á það ríka áherslu að reglur um úthlutun fjár til ljósleiðaravæðingar liggi fyrir í lok sumars, þær séu skýrar og taki tillit til mismunandi aðstöðu byggðalaga út um land. Þá áréttar stjórn SSA þá skoðun sína að ljósleiðaravæðing Íslands sé jafn nauðsynleg og aðrir innviðir samfélagsins, s.s. samgöngur, heilbrigðisþjónusta og löggæsla. Verkefnið um ljósleiðaravæðingu er á höndum hins opinbera og í anda núgildandi laga. Því er brýnt að tryggja aukið fjármagn til ljósleiðaravæðingar í takt við umfang verkefnisins.“

Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að standa við þau áform sem voru kynnt eftir að starfshópur á vegum ríkisstjórnar skilaði tillögum sínum.

8. Sala á félagslegum íbúðum (fskj. 1)

Varasjóður húsnæðismála opnaði fyrir umsóknir í sjóðinn þann 1. júlí og hefur sett ýmis skilyrði fyrir því að umsóknir verði teknar til greina. Auk þess er framlagið sem sjóðurinn hyggst veita í verkefnið á landsvísu aðeins 20 milljónir á ári á árunum 2016 og 2017. Unnið er að greinargerð vegna væntanlegrar umsóknar frá Breiðdalshreppi og í framhaldinu verður látið á það reyna hvort umsókn verður viðurkennd. Á fundinum voru einnig ræddir aðrir möguleikar ef ekki tekst að fá fjármagn úr varasjóðnum.

9. Fundargerðir

a) Skipulagsnefnd 27.6. 2016 (fskj. 2)
b) Landbúnaðarnefnd 28.6. 2016 (fskj.3)
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar og eru samþykktar af sveitarsjórn.

10. Ýmis erindi

a) HSA Punktar til Sveitarstjóra á A-landi 11.06. 2016 (fskj 4)
Lagt fram til kynningar, sveitarstjórn leggur ríka áherslu á að læknis- og hjúkrunarþjónusta á Breiðdalsvík skerðist ekki frá því sem nú er.

b) Ferðamálastofa bréf til sveitarfélaga 23. júní (fskj 5)

c) Kortlagning ferðamannastaða 7613 Breiðdalshreppur (fskj 6)

d) Minjastofnun Auglýsing-verndarsvæði (fskj 7)
Verkefnastjóra falið að skoða liði b) til d) nánar í samráði við oddvita og er þeim falið að afgreiða máli í samræmi við umræðu á fundinum.

e) NAUST sveitarfélög_girðingarverkefni (fskj 8)
Sveitarstjórn lýsir yfir stuðningi við umrætt verkefni og felur verkefnastjóra að vinna að því í samstarfi við NAUST.

f) Sameinuðu þjóðirnar - úttekt á stöðu mannréttindamála (fskj 9)
Lagt fram til kynningar

g) Beiðni um styrk, Griffla 13.6.2016 (fskj 10)
Um er að ræða áhugavert menningarverkefni og samþykkir svetarstjórn að leggja fram 2.000 kr framlag fyrir hvert barn í grunnskóla, börnin eru nú 16 og því er framlagið 32 þús krónur.

11. Önnur mál

a) Vegur um Meleyri
Sveitarstjórn harmar þann mikla drátt sem hefur orðið á endurbyggingu þjóðvegar 1 um Meleyri, en nú er rúmlega hálft ár frá því að vegurinn skemmdist í miklu óveðri. Ekki verður unað við frekari drátt á viðgerð vegarins, skemmdirnar hafa ítrekað skapað hættu í umferðinni, ekki síst eftir að sumarumferð hófst fyrir alvöru. Skorað er á Vegagerðina að ljúka viðgerð nú þegar.

b) Framlag úr Styrkvegasjóði.
Nýlega barst styrkur úr sk. Styrkvegasjóði, sem Breiðdalshreppur sótti um til að gera við brú á Hnausá í Norðurdal, en brúin féll niður í miklu vatnsveðri í lok síðasta árs.. Vonast er til að fjárveitingin nægi til að klára viðgerð á brúnni, sem er allri umferð inn af Þorvaldsstöðum mikilvæg.

c) Umsókn frá Vegagerðinni um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku
Í samræmi við ákvæði í reglugerð um framkvæmdaleyfi nr 772/2012 veitti sveitarstjórn Breiðdalshrepps Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til efnistöku vegna mölunar á malarslitlagi til notkunar á þjóðvegi 1 í Breiðdal. Um er að ræða efnistöku og vinnslu á allt að 3000 m3 af efni úr eldri námu í landi Þorgrímsstaða í Breiðdal. Gerð er krafa um að samþykki landeigenda liggi fyrir vegna efnistökunnar. Þegar efnistöku lýkur er nauðsynlegt að ganga frá efnistökusvæði í samræmi við það sem var áður en efnistaka hófst.

Fundi slitið kl. 18:55
Fundargerð ritaði Hákon Hansson