Smalafundur 17.8.2016

Fundargerð smalafundar í Breiðdalshreppi 17. ágúst 2016

Formaður Landbúnaðarnefndar Breiðdalshrepps boðaði til fundarins til að skipuleggja smölun í Breiðdal og Stöðvardal haustið 2016.

Mætt voru: Arnaldur Sigurðsson, Gróa Jóhannsdóttir, Jón Brynjar Eiríksson, Kristín Hannesdóttir, Íris Aðalsteinsdóttir, Rúnar Ásgeirsson, Lárus Sigurðsson, Helga Harðardóttir, Viðar Pétursson, Björgvin Hlíðar Pétursson, Jóhann Snær Arnaldsson, Haukur Heiðar Hauksson og Arnar Sigurvinsson. Einnig mættu á fundinn Sif Hauksdóttir verkefnastjóri sveitarstjórnarmála og Þorsteinn Kristjánsson og Katrín Guðmundsdóttir bændur á Jökulsá í Borgarfirði eystra.
Fundarritari var Hákon Hansson.
Arnaldur setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega Þorstein Kristjánsson og Katrínu Guðmundsdóttur.

Í samræmi við ákvörðun smalafundar 2015 hafði Þorsteinn verið fenginn á fundinn til að segja bændum í Breiðdal frá fyrirkomulagi smalana í Borgarfirði og því svæði sem bændur í Borgarfirði smala á hverju hausti. Þorsteinn fór jafnframt yfir fjallskilasamþykkt fyrir Múlasýslur frá 2006, en hann var í starfshópi sem endurskoðaði samþykktina.
Sérstaða Austurlands felst m.a. í því að hér eru engir afréttir. 
Þorsteinn greindi frá því hvernig reynt var að aðlaga samþykktina að aðstæðum á Austurlandi, eins og kostur var og lög leyfðu. Þorsteinn sagði frá vinnu starfshóps sem gerði tillögur um fjallskil, en hann gat þess að innan gildandi laga væri mikið svigrúm til að ná sáttum í þessum efnum. 

Starfshópurinn taldi upp eftirfarandi möguleika í skýrslu sinni:
1. Álagning fjallskila, á öll lögbýli.
2. Greiðsla í formi vinnu.
3. Hreinsun jarðeigna.

Þá greindi Þorsteinn frá tillögum starfshópsins, þar sem lagt er til að sveitarstjórnir setji sér samþykkt um fjallskil og skilgreini hvað orðin a) heimalönd og b) upprekstrarheimalönd merkja. Sérstaklega er mikilvægt að skilgreina hvað teljast upprekstrarheimalönd. Eindregið er lagt til að samkomulag sé gert um sameiginlega félagslega smölun á þessum upprekstraheimalöndum. Starfshópurinn hefur skilað af sér en tillögurnar hafa ekki verið staðfestar enn sem komið er.
Sveitarstjórn hefur rétt til að fyrirskipa smölun heimalanda, en eindregið er mælt með samkomulagi eftir því sem frekast er unnt. Ef vandamál eru við smölun er hægt að fella heimalönd undir almenn fjallskil. Þorsteinn fór í glöggu máli yfir fyrirkomulag smölunar í Borgarfirði, Loðmundarfirði og Víkum. Um er að ræða 6 skilgreind smalasvæði sem öll eru skilgreind sem upprekstrarheimalönd og smalasvæðin eru með fastsettan fjölda dagsverka. Alls eru dagsverk 99 en hvert dagsverk er metið 35 kindur, þ.e. dagsverkum er skipt eftir fjárfjölda á bæjum.
Borgfirðingar hafa sameinast um að allir sendi fé í sama sláturhús til slátrunar, sem léttir mjög alla skipulagningu.
Að mjög greinargóðu erindi Þorsteins loknu beindu fundarmenn spurningum til hans og í lokin var þeim hjónum þökkuð koman á fundinn.

Að erindi Þorsteins loknu var fjallað um smalamennskur í haust og einkum vandamál varðandi smölun í Stöðvarfirði sem frekar koma til með að aukast eftir því sem fé fjölgar í Breiðdal. Í fyrra kom fram á smalafundi í orðum Sigurðar Baldurssonar, formanns landbúnaðarnefndar Fjarðabyggðar, að þá var ekki vilji hjá Fjarðabyggð að leggja til menn í göngur í Stöðvardal. Ef vilji væri til breytinga af hálfu Breiðdælinga varðandi þessa ákvörðun sagði Sigurður eðlilegt að leitað yrði til bæjarráðs Fjarðabyggðar sem sér um fjármálin.
Arnaldur hafði daginn sem fundurinn var haldinn rætt við Önnu Berg Samúelsdóttur umhverfisstjóra Fjarðabyggðar, en engin niðurstaða fékkst þar en Anna ætlaði að kynna sér stöðu málsins.
Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að finna ásættanlega lausn varðandi smalanir í Stöðvarfirði. Þorsteinn hafði áður bent á þann möguleika að gera skriflegan samstarfssamning við Fjarðabyggð varðandi smalanir og í honum yrðu tryggð framlögð dagsverk.

Síðasta málið á dagskrá smalafundar var skipulagning smölunar nú í haust. Byrjað var á að fastsetja smölun í Stöðvardal aðra helgi í september. Að öðru leyti verði skipulag smölunar haustið 2016 sem hér segir:

Fyrsta helgi í sept
3. september Tinnudalur - Gilsárstekksskógur

Önnur helgi í sept
10. september Stöðvardalur
11. september Æskilegt væri að smala Eydalaland í framhaldi af Stöðvarfjarðargöngu

Þriðja helgi í sept
17. - 18. september Skjöldólfsstaðir: Fagridalur - Skammidalur. Fellsland – Ormsstaðir - Gunnarstindur út í Þverhamar og Holts/Snæhvammsland.

Fjórða helgi í sept
23. - 25. september Tinnudalur - Gilsárdalur. Þorvaldsstaðir – Tóarsel. Suðurdalur innanverður. Ós. Kleifarland (væntanlega).

Fyrsta helgi í okt.
1. - 2. október Stöðvarfjörður – Fossdalur og úteftir

Að lokum kom fram í máli fundarmanna mikilvægi þess að eftirleitir verði vel skipulagðar en nokkur misbrestur hefur verið á því á undanförnum árum. Slík skipulagning verði á verksviði Landbúnaðarnefndar.

Fundi var slitið um kl. 22.00

Fundargerð ritaði Hákon Hansson