10. fundur 2016

Tíundi fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 var haldinn mánudaginn 29. ágúst 2016. Hann hófst kl. 17:30 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Arnaldur Sigurðsson, Helga Hrönn Melsteð og Helga Svanhvít Þrastardóttir sem sat fundinn í stað Gunnlaugs, sem boðaði forföll. Einnig sat fundinn Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Framhald verkefnisins Breiðdælingar móta framtíðina.
Oddviti fór yfir stöðu mála, en Bjarni Kr. Grímsson lét af störfum í lok maí. Enn hefur ekki verið ráðinn verkefnastjóri í stað Bjarna og starfið hefur ekki enn verið auglýst. Boðaður hefur verið fundur með forstjóra Austurbrúar á morgun, þar sem farið verður yfir stöðuna. Menn eru sammála um að frekari dráttur sé óásættanlegur og styður hugmyndir oddvita og verkefnastjóra um lausn sem hefur lítillega verið rædd við fulltrúa Byggðastofnunar. Ljóst er að sveitarstjórn gerir kröfu um að aðsetur verkefnisstjóra verði áfram á Breiðdalsvík.

2. Varasjóður húsnæðismála
Gengið hefur verið frá umsókn um fyrirgreiðslu frá Varasjóði húsnæðismála og sótt um að geta selt 2 íbúðir á þessu ári og áform eru um að selja 2 til 3 íbúðir til viðbótar á næsta ári. Áhyggjuefni er hvað lítið fjármagn er til úthlutunar hjá sjóðnum, en Breiðdalshreppur treystir því að mæta velvilja sjóðsins. Þetta verkefni er eitt af þeim mikilvægustu í endurreisn fjármála hjá Breiðdalshreppi.

3. Starfsemi og ráðning starfsmanns í áhaldahúsi
Verkefnastjóri og oddviti lögðu fram tillögu um að auglýsa starf starfsmanns hjá áhaldahúsi sem ynni undir stjórn verkstjóra áhaldahúss. Ljóst er að erfitt er að fá starfsmann í hlutastarf og því er lagt til að um fullt starf verði að ræða, en á móti komi breytt skipulag á starfsemi í áhaldahúsi.

4. Byggðaráðstefna á Breiðdalsvík 14. og 15. september
Verkefnastjóri og oddviti skýrðu frá undirbúningi Byggðaráðstefnu sem haldin verður á Breiðdalsvík eftir rúman hálfan mánuð. Vonast er eftir góðri aðsókn og Breiðdalshreppur mun greiða ráðstefnugjald fyrir þá fulltrúa sína sem sitja ráðstefnuna.

5. Hafnasambandsþing, stefnumörkun, val fulltrúa
Fundargerð og drög að stefnumörkun lögð fram til kynningar. Samþykkt að tilnefna ekki fulltrúa á boðað hafnasambandsþing sem fram fer á Ísafirði 13. og 14. október vegna mikils kostnaðar.

6. Ísland ljóstengt
Oddviti fór yfir minnisblað sem barst frá Fjarskiptasjóði, en það er vakin athygli á þeim kostum sem til greina koma við ljósleiðaravæðingu og hvenær er krafa um útboðsskyldu. Ýmsir möguleikar eru í stöðunni en sveitarstjórn Breiðdalshrepps ítrekar stuðning við bókun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi frá 23. 6. sl sem sagt var frá í fundargerð 9. fundar.

7. Byggingarleyfi Sólbakki 2
Sveitarstjórn felur byggingarfulltrúa að afgreiða umsókn vegna umsóknar fyrir Sólbakka 2. Um er að ræða minni háttar breytingu sem byggingarfulltrúi hefur heimild til að afgreiða milli funda í skipulagsnefnd.

8. Smalafundur, fundargerð 17.8. 2016 Farið var yfir niðurstöðu smalafundar sem haldinn var 17. ágúst. Í fjarveru formanns landbúnaðarnefndar ræddi oddviti við fjallskilastjóra Fjarðabyggðar og er vilji fyrir að gera samkomulag um fjallskil í Stöðvarfirði í samræmi við ákvæði í 16. grein Fjallskilasamþykktar fyrir Múlasýslur frá 2006.

9. Bréf og fundargerðir
a) Bændasamtökin bréf vegna fjallskila (fskj. 6)
b) Íbúðalánasjóður bréf um ný lög um almennar íbúðir (fskj. 7)
c) Frá Skipulagsstofnun - Landsskipulagsstefna 2015-2026 (fskj. 8)
d) Samband ísl. sveitarfélaga - Fundargerð 841 (fskj. 9)
e) HAUST 130. fundargerð 29.6.2016 (fskj.10) Bréf og fundargerðir undir liðum a til e lögð fram til kynningar.
f) Umsókn fyrir heimagistingu á Þverhamri (fskj. 13) Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að umrætt leyfi verði veitt, svo fremi að umsagnaraðilar gefi jákvætt svar.

10. Önnur mál
a) Opnun á nýrri heimasíðu Breiðdalshrepps. Stefnt er að opnun síðunnar á næstu dögum.
b) Samþykkt að grunnskólinn kaupi tvær borðtölvur.

Fundi slitið kl. 19:00
Fundargerð ritaði Hákon Hansson