11. fundur 2016

Ellefti fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 var haldinn mánudaginn 19. september 2016. Hann hófst kl. 17:00 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Arnaldur Sigurðsson, og Helga Svanhvít Þrastardóttir. Einnig sat fundinn Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Heimsókn verkefnisstjóra SSA Bjargar Björnsdóttur (fskj. 1)
Björg Björnsdóttir verkefnisstjóri sveitastjórnarmála hjá Austurbrú og fór yfir drög að ályktunum sem stjórn SSA leggur fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem fram fer á Seyðisfirði 7. og 8. október nk. Björg fór yfir drögin og svaraði spurningum fundarmanna. Að umræðum loknum vék Björg af fundi og oddviti þakkaði henni fyrir komuna og upplýsingarnar.

2. Málefni áhaldahúss
Auglýst var eftir starfsmanni í fullt starf og rann umsóknarfrestur út 9. september. Þrjár umsóknir bárust um starfið og voru þær kynntar á fundinum. Oddviti gat þess að auglýst hafi verið eftir verkamanni í starfið sem yrði undirmaður verkstjóra áhaldahússins og laun væru í samræmi við það. Enda þótt þess hafi verið getið í auglýsingu, að æskilegt væri að umsækjandi hefði iðnmenntun var ekki verið að auglýsa eftir iðnaðarmanni, heldur var áherslan á réttindi á lyftara og aðrar vélar sem áhaldahúsið vinnur með. Samþykkt að fela verkefnastjóra og varaoddvita að ræða við umsækjendur og gera þeim ljóst hvaða laun eru í boði og hverjar aðrar kröfur sem gerðar eru til starfsmannsins. Í framhaldi af samtölum við umsækjendur verði starfsmaðurinn ráðinn.

3. Aðalskipulag kafli um hverfisvernd (fskj. 2)
Oddviti kynnti þær lagfæringar sem gerðar voru á kaflanum um hverfisvernd í drögum að nýju aðalskipulagi. Ekki hefur enn gefist tími til að ljúka kaflanum í samræmi við ákvörðun sem tekin var á vinnufundinum, en það verður gert strax og kostur gefst.

4. Byggðafestukvóti Breiðdalshrepps (fskj. 3)
Oddviti kynnti bréf sem hann sendi til Byggðastofnunar 10. 8. sl. Þar var farið fram á að byggðafestukvóti fyrir Breiðdalshrepp verði aukinn í 400 tonn á næsta fiskveiðiári. Oddviti lagði síðan fram eftirfarandi bókun: Í ljósi erfiðrar stöðu í útgerð og fiskvinnslu á Breiðdalsvík, þar eru nú blikur á lofti, einkum er varðar framhald fiskvinnslu á staðnum, skorar sveitarstjórn Breiðdalshrepps á stjórn Byggðastofnunar að auka byggðafestukvóta í 450 tonn á næsta næsta fiskveiðiári. Með því móti eru meiri líkur á að fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur ehf haldi áfram fullri starfsemi á Breiðdalsvík. Tillagan var samþykkt samhljóða en sveitarstjórn hefur miklar áhyggjur af þeirri óvissu sem ríkir í þessum málum nú á haustmánuðum.

5. Verkefnisstjórn Brothættra byggða (fskj. 4)
Verkefnastjóri og oddviti kynntu áform um að stjórn í verkefninu Breiðdælingar móta framtíðina flytjist til heimamanna. Í samvinnu Byggðastofnunar, Breiðdalshrepps og Austurbrúar hafa verið unnin drög að breytingu á þeim samningi sem nú er unnið eftir. Stefnt er að því að afgreiða málið á næsta fundi verkefnisstjórnar. 

6. Byggðaráðstefna á Breiðdalsvík 14. og 15. september
Byggðaráðstefnan Sókn landsbyggða: Kemur unga fólkið? Hvar liggja tækifærin? var haldin á Breiðdalsvík dagana 14. og 15. september. Það er samdóma álit gesta og þeirra sem að ráðstefnunni stóðu að hún hafi tekist einstaklega vel og má þakka það mörgum, svo sem verkefnisstjórninni sem skipulagði ráðstefnuna, góðum erindum og góðri þátttöku, en rúmlega 100 manns voru á ráðstefnunni þessa tvo daga. Sveitarstjórn sér ástæðu til að þakka þeim fyrirtækjum sem heimsótt voru fyrir þeirra framlag og sérstakar þakkir fær Friðrik Árnason og starfsfólk Hótels Bláfells fyrir frábæra skipulagningu, góða aðstöðu og úrvals veitingar. Það er gleðiefni fyrir Breiðdælinga að vita af því að hægt sé að halda stórar ráðstefnur hér með slíkum glæsibrag. Og lofar vissulega góðu um framhaldið.

7. Bréf og erindi til sveitarstjórnar
a) Fjársýsla ríkisins Uppgjör útsvars v.tekna 2015 (fskj. 5)
b) Framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda (fskj. 6)
c) Framlög vegna nýbúafræðslu (fskj. 7)
d) 2 bréf frá Jöfnunarsjóði (fskj. 8)
e) Áhrif nýrrar húsnæðislöggjafar gagnvart sveitarfélögum (fskj. 9)
f) Samb. ísl. svfj - Úthlutun úr námsgagnasjóði (fskj.10)
g) Námskeið Vinnueftirlitsins haustið 2016 (fskj.11)
h) Orkusjóður, sérstakir styrkir (fskj.12)
i) Umhverfisstofnun skýrsla Reglub. eftirlit með mótt. úrgangs (fskj.13)
j) Alþingiskosningar 2016 – utankjörfundaratkvæðagreiðsla (fskj.14)
Bréf og erindi í liðum a) til i) lögð fram til kynningar á fundinum. Starfsfólk Breiðdalshrepps mun vinna úr gögnunum eftir því sem við á. Samþykkt skv. j) lið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram á skrifstofu Breiðdalshrepps undir stjórn verkefnastjóra.

8. Önnur mál
1) Bréf til IRR vegna erlends nemanda og gatnagerðargjalda 
Framhald þessara mála kynnt, en það er í höndum Sifjar Hauksdóttur skólastjóra.
2) Ný heimasíða Breiðdalshrepps
Stefnt er að opnun nýrrar heimasíðu 1. október, en annir hafa staðið í vegi fyrir því að tekist hafi að ljúka lokafrágangi.
3) Bréf til sveitarfélaga frá Mílu dags 10.9. Oddviti kynnti bréfið á fundinum.

Fundargerð ritaði Hákon Hansson