2. fundur 2016

Annar fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 haldinn þriðjudaginn 16. febrúar 2016. Hann hófst kl. 17:30 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson, Helga Hrönn Melsteð og Elís Pétur Elísson varamaður. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Skýrsla um óveðurstjón 30.12. 2015 (fskj. 1)

Fimmtudaginn 28. janúar komu verkfræðingarnir Sigurður Sigurðarson og Kjartan Elíasson, starfsmenn hafnadeildar Vegagerðarinnar í vettvangsferð á Breiðdalsvík til að meta tjón á hafnasvæðum, grjótgörðum og strönd vegna óveðurs sem gekk yfir í lok árs 2015, 30. desember. Þeir hafa nú lagt fram mat á tjóni vegna óveðursins, sem heitir Minnisblað – Tjón vegna óveðurs 30. desember 2015 og er stílað á vegamálastjóra. Þessir sérfræðingar hafa metið tjón á þeirra verksviði sem varð á Breiðdalsvík samtals 47,7 milljónir.
Matsskýrsla sem Viðlagatrygging lét gera á tjóni sem Viðlagatrygging bætir liggur ekki fyrir en er væntanleg, líklega í þessari viku. Öll fyrirliggjandi gögn verða send til viðbragðshóps forsætisráðherra, sem tekur væntanlega ákvörðun um bætur, sem ekki falla undir bótaskylt tjón.

2. Sjálfseignarstofnun um kaup á sláturhúsinu (fskj.2)

Nú hefur verið stofnuð sjálfseignarstofnunin Borkjarnasafn á Breiðdalsvík ses sem er að fullu í eigu Breiðdalshrepps. Sjálfseignarstofnunin hefur það hlutverk að kaupa og eiga gamla sláturhúsið á Breiðdalsvík og leigja það áfram til Náttúrufræðistofnunar Íslands undir Borkjarnasafn Íslands. Kaupin hafa verið fjármögnuð með láni frá Landsbankanum og munu leigutekjur standa undir afborgunum og viðhaldi hússins. Leigusamningur er til 15 ára, en lánið verður að fullu greitt eftir 7 ár.

3. Ný slökkvistöð að Selnesi 28

Búið er að taka nýja slökkvistöð að Selnesi 28 í notkun og hefur slökkvibíllinn verið fluttur þangað. Hús slökkvistöðvarinnar er nú í eigu Breiðdalshrepps og hafa verið gerðar endurbætur á húsinu, komin er ný hurð á vesturhlið og einnig er búið að setja upp varmadælu. Framundan eru frekari endurbætur og einnig kaup á nauðsynlegum tækjabúnaði í stað eldri búnaðar sem var úr sér genginn. Slökkviliðsstjóri er Indriði Margeirsson.

4. Heydalakirkja könnun Fornleifastofnunar (fskj.3)

Sr. Gunnlaugur kynnti niðurstöður skýrslu sem unnin var af Lilju Björk Pálsdóttur fornleifafræðingi um niðurstöður fornleifarannsóknar sem fram fór sl. sumar. Um er að ræða könnunarskurði sem grafnir voru og eru niðurstöðurnar kynntar í skýrslunni, tvímælalaust er ástæða til að kanna svæðið nánar og stefnt er að því að hefja viðræður við Fornleifastofnun um framhaldið.

5. Byggðamálaráðstefna á Breiðdalsvík í haust

Stefnt er að því að halda Byggðamálaráðstefnu á vegum Byggðastofnunar og fleiri aðila á Breiðdalsvík í haust, líklega um miðjan september. Fengnir verða fræðimenn til að fjalla um ýmis efni er varða byggðamál og fleira. Starfshópur vinnur að undirbúningi ráðstefnunnar, í honum eru m.a. fulltrúar Breiðdalshrepps, verkefnastjóri og oddviti ásamt verkefnastjóra verkefnisins Breiðdælingar móta framtíðina og fulltrúar Austurbrúar, Sambands ísl.sveitarfélaga og Byggðastofnunar.

6. Drög að nýrri heimasíðu Breiðdalshrepps kynnt

Samið hefur verið við fyrirtækið PES,vefum og hönnum ehf. um gerð síðunnar. Frumdrög liggja fyrir og tölvunarfræðingurinn Kristján Krossdal, annar eigenda fyrirtækisins kom til Breiðdalsvíkur nýlega og fór yfir uppbyggingu heimasíðunnar með verkefnastjóra og oddvita. Stefnt er að því að heimasíðan verði tilbúin í apríl.

7. Umsókn um leyfi til að halda hund á Breiðdalsvík (fskj.4)

Arnþór Ingi Hermannsson hefur sótt um að fá leyfi til að halda Border collie hund að Hrauntúni 4. Sveitarstjórn samþykkir að veita umbeðið leyfi, með þeim skilyrðum sem reglur sveitarfélagsins segja til um. Verkefnisstjóra falið að tilkynna afgreiðslu sveitarstjórnar.

8. Erindi til Breiðdalshrepps

a) Endurgreiðsla vegna refaveiða 2015 (fskj.5)
b) Fundargerð 25. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga (fskj.6)
c) Fundargerð 381. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands (fskj.7)
d) Samræmd lóðaafmörkun (fskj.8)
e) HAUST 127 fundargerð 16.02.10 (fskj.9)
f) Birtingaráætlun 2016 (fskj.10)
g) Bréf til sveitarfélaga v. svæðisáætlana um úrgang (fskj.11)

Erindi undir liðum a) til g) eru lögð fram til kynningar ásamt fylgiskjölum.

9. Önnur mál

a) Tillögur að reglum um snjómokstur á Breiðdalsvík (fskj.12)

Drög að reglum um snjómokstur í þéttbýli á Breiðdalsvík lögð fram til kynningar og samþykktar. Sveitarstjórn samþykkir tillögurnar eins og þær liggja fyrir eftir umfjöllun og verða reglur um snjómokstur í þéttbýli aðgengilegar á heimasíð Breiðdalshrepps. Verkefnastjóra falið að útbúa gjaldskrá í samráði við oddvita sem kynnt verði á næsta fundi. Það verði tekið sérstaklega tillit til afsláttar til ellilífeyrisþega og öryrkja.

b) Vinnufundur um nýtt aðalskipulag

Samþykk að sveitarstjórn komi saman til vinnufundar mánudaginn 22. febrúar nk. kl 17,30 vegna vinnu við aðalskipulag Breiðdalshrepps. Gögn hafa áður verið send til fulltrúa í sveitarstjórn. Ef frekari gögn hafa borist fyrir fundinn verða þau send.

c) Leiðarlýsingar fyrir Breiðdalsvík á ensku og íslensku, Wapp (fskj.13)

Sveitarstjórn fagnar framtaki Einars Skúlasonar við gerð Wapps, sem er lýsing á gönguleið um Breiðdalsvík með lýsingum á nokkrum völdum stöðum. Einari er þakkað gott samstarf og stefnt er að frekara samstafi þegar tækifæri gefst, þar sem fjallað yrði um gönguleiðir í dreifbýli.

d) Félagslegar leiguíbúðir

Sveitastjórn stefnir að því að selja 3 til 4 leiguíbúðir á þessu ári og hugsanlega fleiri síðar. Þegar liggja fyrir umsóknir aðila sem vilja kaupa íbúðir. Vonast er eftir skýrum svörum frá Íbúðalánasjóði og Varasjóði húsnæðismála á næstunni.

e) Fundartími sveitarstjórnar

Oddviti lagði fram tillögu um að framvegis yrðu reglulegir fundir sveitarstjórnar haldnir fyrsta mánudag í mánuði og síðan aukafundir eftir þörfum Tillagan var samþykkt samhljóða. Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 19,30

Fundargerð ritaði Hákon Hansson