3. fundur 2016

Þriðji fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 haldinn mánudaginn 7. mars 2016. Hann hófst kl. 17:30 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson og Helga Hrönn Melsteð. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri. Elís Pétur Elísson varamaður mætti kl 18,05
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Skýrsla Viðlagatryggingar vegna óveðurstjóns 30.12. 2015 (fskj. 1)

Ljóst er skv. meðfylgjandi matsskýrslum, að bætur frá Viðlagatryggingu Íslands verða að óbreyttu mjög lágar. Bætur fást vegna skemmda á fráveitu, áhaldahúsi og á litlum hluta hafnarmannvirkja. Samtals er bótaskylt tjón sem Viðlagatrygging Íslands bætir metið á 3.513.000 kr en frá þeirri upphæð dregst sjálfsábyrgð sveitarfélagsins upp á 1.785.000 kr skv. tryggingaskilmálum. Tryggingar á Selnesi 1 skiptast milli eigenda hússins.

2. Kaup Borkjarnasafns á Breiðdalsvík ses á sláturhúsinu (fskj.2)

Sjálfseignarstofnunin Borkjarnasafn á Breiðdalsvík ses sem er að fullu í eigu Breiðdalshrepps en nú staðfestur eigandi húseignarinnar Sæbergs 3 á Breiðdalsvík, sem upphaflega var byggt sem sláturhús. Gengið hefur verið frá leigusamningi við Náttúrufræðistofnun Íslands um leigu á húsinu til 15 ára og standa leigutekjur undir afborgunum á lánum og öðrum kostnaði við starfsemina. Tekið var lán hjá Landsbanka Íslands til 7 ára, að þeim tíma liðnum verður húsið skuldlaust í eigu sjálfseignarstofnunarinnar.

3. Almenningssamgöngur á Austurlandi StAust (fskj.3)

Frá og með 1. mars sl breyttist akstur Strætisvagna Austurlands í tengslum við breytingar á vöktum hjá álverinu á Reyðarfirði. Eftir sem áður eru þrjár ferðir á dag frá Breiðdalsvík, en nú eru brottfarartímar kl 06:20, 14:20 og 22:20 dag hvern. Kynnt hefur verið ný akstursáætlun og er hún aðgengileg á heimasíðu Breiðdalshrepps.

4. Tilboð í Hrauntún 6, Breiðdalsvík

Tilboð hefur borist í Hrauntún 6 sem Breiðdalshreppur auglýsti nýlega til sölu. Ljóst er að það tilboð sem barst er lægra en áhvílandi skuld við Íbúðalánasjóð. Breiðdalshreppur hyggst selja Hrauntún 6, ef 90 % af mismuni á söluverði og því sem á húsinu hvílir, fæst frá varasjóði húsnæðismála. Bundnar eru vonir við að niðurstaða fáist þar að lútandi á næstu dögum. Verkefnastjóri og oddviti fá umboð til að semja við hæstbjóðanda um kaup hans á húsinu, ef framlag frá varasjóði húsnæðismála fæst.

5. Tilnefning fulltrúa í starfshóp um svæðisskipulag á Austurlandi

Samþykkt að tilnefna Sif Hauksdóttur sem aðalmann og Hákon Hansson til vara.

6. Umgengni á Breiðdalsvík

Eitt af meginmarkmiðum núverandi sveitarstjórnar hefur verið að bæta umgengni á Breiðdalsvík og raunar í sveitarfélaginu öllu. Miðað hefur hægar en vonast var eftir. Því er nú stefnt að umhverfisátaki á Breiðdalsvík á næstu vikum og verður hart gengið eftir því að umgengni við nokkur fyrirtæki í þorpinu og einnig við hluta íbúðarhúsa verði bætt. Skorað er á alla viðkomandi að bregðast nú vel við og snyrta umhverfi sitt, svo ekki þurfi að gripa til annarra ráða.

7. Samgöngumál

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps vekur athygli Vegagerðarinnar á að merkingar við mörk þjóðvegar 1 og Suðurfjarðavegs við Breiðdalsvík getur valdið ruglingi. Ekki er gerð athugasemd við að límt sé yfir leið 1 um Breiðdalsheiði til Egilsstaða, en merkja þarf Suðurfjarðaveg þannig að ljóst sé að þar er einnig hægt að komast til Egilsstaða.

8. Erindi til Breiðdalshrepps

a) Bréf frá Elís Pétri Elíssyni, vegna endurbóta á bryggju (fskj.4)
Elís Pétur vék af fundi undir þessum lið. Beðið er eftir því að verktaki sem samið hefur verið við beri vandað efni á veginn út á nýju bryggju, svo aðkoma þar að verði auðveldari. Sama á við um veginn neðan við gamla vigtarskúrinn, sá vegur verður lagfærður um leið og verktakinn kemur á staðinn. Í fjárhagsáætlun fyrir 2016 var ekki gert ráð fyrir að leggja bundið slitlag á landganginn út á bryggju á þessu ári og ekki heldur niður á gamla bryggjuhaus sem flotbryggjur tengjast við.
b) Styrktarsjóður EBÍ , 2016 (fskj.5)
c) Fundargerð 382. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands (fskj.6)
Lagt fram til kynningar
d) Sýningin Kvenljósmyndarar á Austurlandi (fskj.7)
Lagt fram til kynningar
e) Umsókn um leyfi til sölu gistingar (fskj.8)
Sveitarstjórn leggst ekki gegn umsókninni enda hafi lokaúttekt byggingarfulltrúa farið fram og húsið sem sótt er um fyrir uppfylli kröfur.
f) Framlög úr Jöfnunarsjóði 2015 (fskj.9)
Lagt fram til kynningar , einnig bréf Jöfnunarsjóðs frá 29. febrúar sl. um framlag vegna íþyngjandi kostnaðar við Grunnskóla Breiðdalshrepps
g) Afskrift vegna tveggja dánarbúa (fskj.10)
Lagt fram til kynningar, sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við erindi sýslumanns og verða skuldir vegna skulda umræddra dánarbúa afskrifaðar.
h) Endurskoðun fasteignamats fyrir Breiðdalsá (fskj.11)
Sveitarstjórn mun ekki veita umsögn vegna erindis frá Þjóðskrá Íslands.
i) Bréf frá Rafey, Egilsst. v. netsambands í Breiðdal (fskj.12)
Greint var frá bréfi Rafeyjar um möguleika á þráðlausu netsambandi í Breiðdal. Oddviti greindi einnig frá fundum sem hafa verið haldnir í tengslum við væntanlega ljósleiðaravæðingu sveita.
j) Erindi frá Héraðsskjalasafni Austurlands (fskj.13)
Erindi Héraðsskjalasafns um hækkun samþykkt.
k) Fundargerðir (Samb. ísl svfj.; Svfj. á köldum svæðum) (fskj.14)
l) Skýrsla, Flutningur þjónustu við fatlað fólk Austurland (fskj.15)
Liðir k) og l) lagðir fram til kynningar.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 19,40

Fundargerð ritaði Hákon Hansson