4. fundur 2016

Fjórði fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2016 haldinn mánudaginn 4. apríl 2016. Hann hófst kl. 17:30 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson og Elís Pétur Elísson. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Starfshópur um við svæðisskipulag fyrir Austurland (fskj. 1)

Verkefnastjóri greindi frá fyrsta fundi, en Sif er fulltrúi Breiðdalshrepps í starfshópnum um svæðisskipulag fyrir Austurland. Hún fór einnig yfir erindisbréf starfshópsins hópsins. Sveitarstjórn Breiðdalshrepps lýsir stuðningi við það vinnulag, að starfshópurinn leggi fram þrjú til fimm þemu sem líklegt sé að sveitarfélögin geti sameinast um. Lögð verði áhersla á verkefni sem hægt er að sameinast um. Mikilvægt er að greina hver þörf er fyrir einstök verkefni og hver ávinningur verður og taka mið af svæðisskipulagi annarra svæða, þar sem slíkt skipulag hefur verið unnið og vel hefur tekist til.

2. Almenningssamgöngur á Austurlandi StAust (fskj.2)

Oddviti greindi frá áframhaldandi vinnu starfshóps um þróun almenningssamgangna á Austurlandi, en í honum sitja fulltrúar sveitarfélaga á svæðinu. Sveitarstjórn Breiðdalshrepps telur rétt að sveitarfélögin á Austurland geri með sér samning um Almenningssamgöngur á Austurlandi. Verkefnið verði á vegum SSA, en rætt var um að samið verði við Austurbrú um framkvæmd þess. Verkefnið er rekstur og umsjón á kerfi Almenningssamgangna á Austurlandi. Farið var yfir hvaða kostir eru varðandi fjármögnun verkefnisins.

3. Leikskólinn Ástún (fskj.3)

Verkefnastjóri og oddviti gerðu grein fyrir fundi með Böðvari Bjarnasyni frá Eflu, en hann er samstarfsmaður Elisar Eiríkssonar byggingafulltrúa Breiðdalshrepps. Farið var yfir kosti og galla þeirrar hugmyndar sem áður hefur verið rædd, að flytja leikskólann Ástún úr núverandi húsnæði yfir í rými í Grunnskóla Breiðdalshrepps. Samhliða flutningi og innréttingu á húsnæði þyrfti að útbúa afgirtan leikvöll fyrir leikskólabörn. Fyrir liggja teikningar frá Eflu varðandi þá útfærslu sem helst kemur til greina og einnig var farið yfir kostnaðaráætlun, sem Böðvar hefur unnið. Verkefnastjóri kynnti sveitarstjórn bréf frá foreldri leikskólabarns, bréfinu verður vísað til leikskólastjóra.

4. Umhverfisátak á Breiðdalsvík

Oddviti og verkefnastjóri kynntu tillögu sína um að fá Teiknistofuna AKS á Egilsstöðum til að vinna hugmynd að fegrun og umhverfisskipulagi á Breiðdalsvík, sem yrði kynnt nánar á næsta fundi sveitarstjórnar. Framhaldið yrði að þær leiðir sem samþykktar verða skuli vinna skipulega og skv. sérstakri vinnuáætlun sem lokið verði við á þremur árum. Verkefnastjóri sagði frá samtali við Önnu Katrínu Svavarsdóttur í dag um framkvæmd verkefnisins.

5. Sumarlokun skrifstofu Breiðdalshrepps

Sveitarstjórn felur verkefnastjóra að auglýsa tímanlega sumarlokun á skrifstofu Breiðdalshrepps í allt að þrjár vikur. Slíkt verði ákveðið í samráði við starfsmenn. Kannaðir verði mögueikar á sumarlokun á öðrum starfsstöðvum. Verkefnisstjóra falið að ræða við starfsmenn.

6. Erindi til Breiðdalshrepps

a) Bréf frá Barnaverndarstofu dags. 29.2. 2016 (fskj.4)
b) Fundargerð stjórnar SSA 6. fundur 15.3. 2016 (fskj.5)
c) Bréf frá Umhverfisstofnun 14.3. 2016 (fskj.6)

Liðir a) til c) lagðir fram til kynningar.

d) Bréf vegna samnings um byggðafestu á Breiðdalsvík (fskj.7)

Oddviti kynnti bréf sem hann sendi til Byggðastofnunar og framkvæmdastjóra Ísfisks í framhaldi af samráði oddvita og verkefnisstjóra við aðra í sveitarstjórn milli funda. Sveitarstjórn telur mikilvægt að þeir útgerðaraðilar sem búsettir eru á Breiðdalsvík, og hafa bolmagn til að útvega kvóta til að uppfylla kröfur um mótframlag við byggðafestukvóta, eigi kost á að koma að samningi um byggðafestu, enda uppfylli þeir kröfur sem þar eru gerðar. Ljóst er að einn af þeim útgerðarmönnum sem eru aðilar að gildandi samningi hefur sagt sig frá honum, vegna vandkvæða við að útvega leigukvóta.
Hjá samningsaðilum hafa komið fram hugmyndir um að breyta kröfum um mótframlag á móti byggðafestukvóta. Verði slík breyting að veruleika telur sveitarstjórn sanngjarnt að útgerðarfélaginu Grænnípu verði gefinn kostur á að koma aftur að verkefninu á breyttum forsendum.

7. Önnur mál

a) Lóðarblað vegna nýbyggingar húss á jörðinni Skriðu í Breiðdal 

Sveitarfélaginu Breiðdalshrepp hefur borist lóðablað vegna fyrirhugaðrar lóðar fyrir nýtt hús á Jörðinni Skriðu í Breiðdal. Erindi þetta hefur verið rætt í í Skipulagsnefnd Breiðdalshrepps og er umsóknin í samræmi við drög að aðalskipulagi (óstaðfestu) fyrir sveitarfélagið.
Vilji Skipulagsnefndar var að umsóknin verði meðhöndluð í samræmi við málsmeðferð um „stakar framkvæmdir“ eins og lýst er í leiðbeiningarblaði skipulagsstofnunar nr. 1. Umsögn Veðurstofu Íslands liggur fyrir og ekki talin ekki þörf á staðbundnu hættumati. Sveitarstjórn samþykkir að málsmeðferð verði í samræmi við það sem að framan er nefnt og felur byggingarfulltrúa að senda bréf til skipulagsstofnunar þar sem óskað er eftir meðmælum fyrir stakri framkvæmd með vísan til byggingarreglugerðar nr. 112/2012, 1. töluliðar ákvæðis til bráðabirgða.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið
Fundargerð ritaði Hákon Hansson