1. Fundur 2017

Fyrsti fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2017 haldinn mánudaginn 3. janúar 2017. Hann hófst kl. 20:00 og fór fram í fundarherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson og Helga Hrönn Melsteð. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna og óskaði þeim farsæls komandi árs.

Dagskrá:

1. Aðalskipulag fyrir Breiðdalshrepps 2016 til 2028 

Oddviti kynnti stöðu mála, nú liggur fyrir skipulagslýsing sem send hefur verið til Skipulagsstofnunar sem hefur þrjár vikur til að veita umsögn og gera athugasemdir. Lýsingin verður send til allra umsagnaraðila á næstu dögum og stefnt er að því að kynna íbúum skipulagslýsinguna og greinargerð í janúar.
Oddviti fær fullt umboð sveitarstjórnar til að fylgja verkefninu eftir í samráði við verkefnisstjóra og Árna Ólafsson hjá Teiknistofu arkitekta á Akureyri.

2. Verkefnið Breiðdælingar móta framtíðina, staðan í dag 

Verkefnastjóri og oddviti kynntu drög að Framtíðarsýn, markmið og verkefnis-áætlun fyrir verkefnið Breiðdælingar móta framtíðina sem nú er í lokavinnslu og verður birt á heimasíðu Breiðdalshrepps á næstunni. Þau fóru einnig yfir næstu verkefni og erindi allra verkefnisstjóra í Brothættum byggðum til þingmanna sinna kjördæma.

3. Byggðastofnun, samkomulag um aukna byggðafestu 

Oddviti kynnti bréf frá Byggðastofnun, þar sem óskað var eftir umsögn sveitarstjórnar Breiðdalshrepps á samkomulagi um aukna byggðafestu á Breiðdalsvík. Aðilar að samningnum gera með sér samning um samstarf við nýtingu 400 þorskígildistonna aflamarks árlega fiskveiðiárin 2016/2017 og 2017/2018 auk mótframlags frá samstarfsaðilum Byggðastofnunar.

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps fagnar því að aflamark var aukið um 100 tonn frá og með fiskveiðiárinu 2016/2017 og styður samninginn eins og hann liggur fyrir.

4. IRR -tölvupóstur frá Eiríki Benónýssyni dags 23.12.2016 

Með bréfi til IRR dags. 17.10. óskaði oddviti f.h. sveitarstjórnar Breiðdalshrepps eftir framlengingu á ákveðnum þáttum fyrri samnings frá 10. febrúar 2015.
Svar barst 23.12. sl og þar segir að innanríkisáðherra hafi samþykkt að vinna að gerð samkomulags fyrir árið 2017 og Jöfnunarsjóður hefur staðfest að leggja til styrk. Á næstu dögum verður farið í að ganga frá nýjum samningi og vinna nánari verkefnisáætlun í samvinnu fulltrúa Breiðdalshrepps og samstarfsaðila okkar í Innanríkisráðuneytinu.

5. Bréf til sveitarstjórnar
a) Umhverfisstofnun-Reglubundið eftirlit með urðunarstað 
Verkefnisstjóra falið að svara erindinu innan tilskilins frests í samvinnu við oddvita.
b) Þroskahjálp bréf dags 7.12.2016 
Lagt fram til kynningar.

6. Lagning ljósleiðara í dreifbýli í Breiðdal.

Oddviti kynnti vinnu sem hann hefur séð um í samvinnu við Karl Hálfdánarson hjá Radíóveri í Garðabæ. Fyrir liggur kostnaðaráætlun vegna verksins og var hún kynnt á fundinum ásamt fleiri gögnum sem borist hafa frá Karli. Sveitarstjórn fagnar því að nú er allt útlit er fyrir að hægt verði að ljúka lagningu ljósleiðara um sveitina á árinu 2017 og veitir oddvita og verkefnisstjóra umboð til að halda áfram vinnu við verkefnið í samráði og samstarfi við Karl Hálfdánarson.

7. Önnur mál
a) Framtíðarfyrirkomulag almenningssamgangna á Austurlandi.
Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í stofnun einkahlutafélags á vegum SSA um almenningssamgöngur og staðfestir staðfestir tilnefningu Sifjar Hauksdóttur sem varamanns í stjorn félagsins.

b) Nýtt bókhaldskerfi
Sveitarstjórn samþykkir að veita verkefnisstjóra umboð til að ganga frá samningi um nýtt bókhaldskerfi.

c) Kaup á spjaldtölvum
Sveitarstjórn staðfestir leyfi til kaupa á tveimur spjaldtölvum fyrir grunnskóla Breiðdalshrepps.

d) Verðbréf í Landsbankanum í eigu Grunnskóla Breiðdalshrepps
Sveitarstjórn veitir skólastjóra heimild til að selja verðbréfið og verja andvirðinu til kaupa á leiktækjum fyrir skólann.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 21,45
Fundargerð ritaði Hákon Hansson