2. Fundur 2017

Annar fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2017 var haldinn mánudaginn 6. febrúar 2017. Hann hófst kl. 17:00 og fór fram í fundaherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Arnaldur Sigurðsson, Helga Hrönn Melsteð og Elís Pétur Elísson varamaður í stað Gunnlaugs Stefánssonar. Einnig sat fundinn Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Ísland ljóstengt 2017 

Oddviti kynnti tilboð sem Breiðdalshreppur lagði fram í verkefninu Ísland ljóstengt 2017. Breiðdalshreppur lagði fram tvö tilboð, annað miðaðist við að Fjarskiptasjóður greiddi 380 þús með hverri tengingu, en þær verða 43. Hærra tilboðið miðaðist við 350 þús kr framlag fyrir hverja tengingu. Hærra tilboðið hefur verið samþykkt og þarf að taka ákvörðun um hvort ráðist verður í ljósleiðaravæðingu dreifbýlis í Breiðdal nú í sumar á þeim grundvelli. Til viðbótar 19.350.000 kr sem fæst úr tilboðinu leggur samgönguráðherra fram byggðastyrk að upphæð 4,1 milljón.

Sveitarstjórn samþykkti að oddviti skrifi undir samning við Fjarskiptasjóð sem byggir á ofangreindu framlagi.

2. Aðalskipulag Breiðdalshrepps skipulagslýsing 

Nú hefur skipulagslýsing fyrir aðalskipulag Breiðdalshrepps verið auglýst og óskað eftir athugasemdum umsagnaraðila. Umsögn Skipulagsstofnunar hefur þegar borist, þar koma fram ýmsar ábendingar um þætti sem þarf að vinna frekar. Oddviti hefur rætt umsögn Skipulagsstofnunar við Árna Ólafsson og ástæða er til að kanna hvort ekki sé rétt að kalla á samráðsfund þar sem aftur yrði farið yfir sviðið er varðar skipulag, m.a. að fara yfir flokkun landbúnaðarlands. Þá er nauðsynlegt að vinna nýja verkáætlun og drög að verksamningi, í tilefni af bréfi Skipulagsstofnunar frá 3. janúar sl varðandi kostnaðarskiptingu.

3. Brothættar byggðir – framtíðarsýn 

Starfandi verkefnisstjórar verkefnisins Breiðdælingar móta framtíðina lögðu fram til kynningar bækling um framhald verkefnisins. Um er að ræða Framtíðarsýn, markmið og verkefnisáætlun verkefninsins Breiðdælingar móta framtíðina. Áframhald verkefnisins byggist á þessum grunni.

4. Drög að samningi við RHA 

Enn er ólokið ákveðnum hluta af samningi Breiðdalshrepps og Innanríkisráðuneytis frá febrúar 2015. Sveitarstjórn samþykkir að leitað verði til Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri við lokaúrvinnslu þessa hluta verkefnisins, enda náist samkomulag um kostnað við verkefnið og stuðningur fáist til að ljúka því.

5. Bókun 1 í kjarasamningi kennara 

Í kjarasamningi sveitarfélaga Félags grunnskólakennara frá 29.11. 2016 var lögð fram bókun 1. Þar segir m.a. að „í kjarasamningum 2014 voru gerðar breytingar á starfsumhverfi kennara og vinnumat innleitt í grunnskólum. Samningsaðilar eru sammála um að framkvæmd breytinganna hafi ekki tekist sem skyldi í mörgum grunnskólum. Því er hverju sveitarfélagi falið að fara yfir framkvæmdina ásamt fulltrúum kennara í hverjum skóla. Markmið slíkrar vinnu er að bæta framkvæmdina þar sem þörf er á og ná sátt um starfsumhverfið. Beina skal sjónum að innra starfi skóla og þeim verkefnum sem grunnskólinn sinnir, tryggja að kennsla og undirbúningur séu forgangsverkefni í skólastarfi og létta álagi af kennurum þar sem við á“.

Meginmarkmið samningsaðila eru að:

• Bæta framkvæmd skólastarfs og ná sátt við kennara um starfsumhverfið.

• Tryggja að kennsla og undirbúningur hennar séu forgangsverkefni í skólastarfi.

• Létta álagi af kennurum þar sem við á.

Oddviti sótti samráðsfund sveitarfélag í síðustu viku þar sem skólastjóri var ekki gjaldgengur á þessum fundi. Oddviti mun leiða það starf sem fram fer með kennurum grunnskólans. Allir 4 kennarar grunnskólans taka þátt í starfinu f.h. kennara. Reynt verður að funda á vinnutíma kennara ef þess er kostur en sveitarstjórn samþykkir að leggja fram 32 yfirvinnutíma til að greiða kennurum vegna fundahalda sem kunna að verða utan hefðbundins vinnutíma. Samþykkt að hver kennari fái 8 yfirvinnutíma greidda.

6. Starfsreglur nefndar um svæðisskipulag 

Fulltrúar Breiðdalshrepps lögðu fram og kynntu starfsreglur nefndar um svæðisskipulag. Sveitarstjórn samþykkir starfsreglurnar eins og þær liggja fyrir.

7. Bréf til sveitarstjórnar

a) Áfangastaðurinn Austurland 

Staða verkefnisins kynnt, það er nú komið á framkvæmdastig og lýsir sveitarstjórn yfir ánægju með stöðu málsins. Fulltrúi Breiðdalshrepps er Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

b) Tetra_uppfærsla bréf frá 112 

c) Afskriftir bréf frá Sýslumanninum á Austurlandi 

d) Lánasj. sveitarfélaga Staða lána um áramót 

e) Mannvirkjastofnun bréf til byggingafulltrúa 

f) Skráning menningarminja bréf frá Minjastofnun 

g) Ný reglugerð um eldvarnir boð um umsögn 

h) Vegagerðin viðskiptayfirlit 2016-Hafnarsjóður 

Liðir b til h lagðir fram til kynningar

i) Bréf til sveitarstjórnar vegna vegamála 

Sveitarstjórn felur oddvita að boða fulltrúa Vegagerðarinnar á fund við fyrstu hentugleika til að ræða stöðu vegamála í Breiðdal.

8. Önnur mál

a) Erindi frá Birni Björgvinssyni

Björn Björgvinsson hefur óskað eftir að eiga fund með sveitarstjórn Breiðdalshrepps til að fara yfir vinnu hans við endurbyggingu gamla kaupfélagsins, sem hann vann í umboði félagsins Gamla kaupfélagið ehf á árunum 1994 til 2008. Björn hefur áður rætt sama mál á fundi sveitarstjórnar.
Birni og Baldri Björgvinssonum er boðið að sækja næsta fund sveitarstjórnar sem haldinn verður mánudaginn 6. mars nk og hefst kl. 17,00. Þeir mæti í upphafi fundar og veitt verður allt að hálf klukkustund til að þeir beri fram erindi sitt.
Sveitarstjórn Breiðdalshrepps samþykkir á fundi sínum 6.2. 2017 að draga tilboð til Björns, dagsett 29.4. 2015 til baka, enda hefur því ekki verið svarað.
Jafnframt lýsir sveitarstjórn yfir vilja til að reyna áfram að finna ásættanlega lausn á áralangri deilu.

b) Viðgerð á brimvarnargarði

Verkefnastjóri og oddviti greindu frá fundi með Kjartani Elíssyni verkfræðingi hjá Vegagerðinni og fulltrúum Þ.S. verktaka sem áttu lægsta tilboð í viðgerð á brimvarnargarði. Verksamningur var undirritaður á Breiðdalsvík 18. janúar sl og hefst vinna bráðlega, en stefnt er að því að ljúka viðgerð ekki síðar en í lok apríl.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 19,15

Fundargerð ritaði Hákon Hansson