3. Fundur 2017

Þriðji fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2017 var haldinn mánudaginn 6. mars 2017. Hann hófst kl. 17:00 og fór fram í fundaherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Gunnlaugur Stefánsson, Helga Hrönn Melsteð, Elís Pétur Elísson og Helga Svanhvít Þrastardóttir. Einnig sat fundinn Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Gestir- Björn og Baldur Björgvinssynir 

Oddviti bauð þá Björn og Baldur velkomna og gat þess að þeir hefðu áður komið á fund sveitarstjórnar þann 16. febrúar 2015, erindið var það sama og nú, að fara yfir vinnu við endurbyggingu gamla kaupfélagsins. Málin rædd itarlega og lagt fram tilboð sem Björn og Baldur taka afstöðu til fyrir 1. apríl 2017.

2. Gestir. Fulltrúar frá Ungu Austurlandi kynna félagið

Fulltrúar frá Ungt Austurland, þau Margrét Árnadóttir formaður og Sigurður Borgar Arnaldsson gjaldkeri kynntu starfsemi félagsins og helstu áherslur. Framundan er að félagið haldi Byggðaráðstefnu Ungra Austfirðinga í apríl n.k.

Borist hefur ósk um fjárstuðning vegna starfseminnar og samþykkir sveitarstjórn Breiðdalshrepps að veita Ungu Austurlandi umbeðinn styrk, 27.000 kr

3. Samningur við Fjarskiptasjóð um ljósleiðara í Breiðdal

Oddviti kynnti styrk sem Fjarskiptasjóður veitti til verkefnisins að upphæð 19.350.000 kr. Jafnframt greindi hann frá því að sveitarstjórn hefði tekið ákvörðun um að verja byggðastyrk að upphæð 4.1 milljón króna til að greiða niður framlög íbúa, sem verða þar með 250.000 kr +VSK á hverja tengingu.

Stefnt er að íbúafundi vegna málsins við fyrstu hentugleika.

Breiðdalshreppur mun fjármagna það sem á vantar, a.m.k. tímabundið. Síðar verði kannað hvort hagkvæmt sé að selja fjarskiptafyrirtæki strenginn.

4. Formennska í verkefnisstjórn Breiðdælingar móta framtíðina

Farið var yfir framtíðarfyrirkomulag formennsku í verkefnisstjórn fyrir Breiðdælingar móta framtíðina. Í verkefnisáætlun Byggðastofnunar fyrir Brothættar byggðir er gert ráð fyrir að formennska í verkefnisstjórn flytjist til fulltrúa sveitarfélags í verkefnisstjórn þegar verkefnið er komið í þriðja áfanga, þ.e. framkvæmdastig. Sveitarstjórn leggur til að fulltrúi Breiðdalshrepps taki við formennsku í verkefnisstjórn.

5. Varasjóður húsnæðismála erindi Breiðdalshrepps hafnað

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps lýsir yfir megnri óánægju vegna ákvörðunar stjórnar varasjóðs húsnæðismála að hafna sanngjörnu erindi Breiðdalshrepps.

Að áeggjan stjórnvalda óskaði Breiðdalshreppur eftir framlagi sjóðsins vegna sölu á 2 til 3 félagslegum íbúðum í Breiðdalshreppi. Sömuleiðis telur sveitarstjórn ámælisvert að svar við erindi berist ekki fyrr en 5 mánuðum eftir að ákvörðun um neitun var tekin.

Breiðdalshreppur hefur um árabil átt í miklum erfiðleikum vegna félagslegra íbúða og hefur ekki áður fengið fyrirgreiðslu úr varasjóði húsnæðismála. Samþykkt að óska eftir viðræðum við stjórn sjóðsins um stöðuna.

6. Fundur sveitarstjórnar með fulltrúum Vegagerðarinnar 28.2.

Sveitarstjórn þakkar fulltrúum Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, þeim Sveini Sveinssyni, Ara B. Guðmundssyni og Davíð Þór Sigfússyni fyrir góðan fund með sveitarstjórn Breiðdalshrepps þann 28. febrúar. Þess er vænst í samræmi við umræður á fundinum, að leitað verði allra leiða til að lagfæra þá malarvegi í Breiðdal og brú á Breiðdalsá sem nauðsynlega þarfnast viðhalds strax.

6 a. Áskorun til samgönguráðherra

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps mótmælir harðlega þeim mikla niðurskurði á samgönguáætlun sem samgönguráðherra hefur boðað. Skorað er á ráðherrann að standa við fjármögnun til þeirra framkvæmda sem lofað hafði verið á Austurlandi á þessu ári, bæði í botni Berufjarðar, á Borgarfjarðarvegi og víðar. Í því sambandi er minnt á að boðað er að afgangur af rekstri ríkissjóðs árið 2017 verði tæplega 25 milljarðar. Og að afgangur af rekstri ríkisins árið 2018 verði 40 milljarðar króna. Vegabætur á Austurlandi þola ekki frekari frestanir.

7. Heimsókn forsvarsmanna Viðlagatryggingar

Fulltrúar Viðlagatrygginga Íslands, þau Hulda R. Árnadóttir framkvæmdastjóri og Jón Örvar Bjarnason byggingarverkfræðingur komu í heimsókn til Breiðdalsvíkur 9. febrúar sl. Heimsóknin var liður í átaki stofnunarinnar til að bæta þekkingu á hlutverki hennar og skráningu opinberra mannvirkja í eigu sveitarfélaganna sem vátryggð eru hjá VTÍ. Fundinn sátu auk áðurnefndra verkefnisstjóri og oddviti.

8.Bréf til sveitarstjórnar

a) Frá Breiðdalssetri- Geopark-Berufjörður-Breiðdalur-

Lagt fram til kynningar, samþykkt að verkefnisstjóri og oddviti fundi við fyrstu hentugleika með Christu Feucht, verkefnisstjóra Breiðdalsseturs.

b) Erindi frá ANR -stefnumótun í fiskeldi

Frestur til að svara bréfi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis rennur út í dag.

Svar verður sent við fyrsta tækifæri.

c)Stefnumótun í ferðaþjónustu bréf frá Thorp consulting

d) Fjölís_samningur um afritun

e) Þjóðskrá - Breytingar i fasteignaskrá

f) Styrktarsjóður EBÍ

g) Brýn málefni HSA – minnisblað

liðir c) til g) lagðir fram til kynningar

h) Bréf slökkviliðsstjóra til sveitarstjórnar 1.3. 2017

Í fjárhagsáætlun fyrir 2017 var til framlag til tækjakaupa. Samþykkt að leggja það fjármagn fram til að kaupa tvo búninga og taka kaupverðið af liðnum 0721. Stefnt verður að því að framvegis verði veitt á fjárhagsáætlun hvers árs sérstakt framlag til kaupa á tækjum og búnaði og verði þeirri upphæð ráðstafað af slökkviliðsstjóra í samráði við sveitarstjóra.

9.Önnur mál

Engin.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 19.55

Fundargerð ritaði Hákon Hansson

_________________________ _________________________

Hákon Hansson Gunnlaugur Stefánsson

__________________________ __________________________

Elís Pétur Elísson Helga Hrönn Melsteð

__________________________

Sif Hauksdóttir

 

 

 

 

 

Erindi - 8 b) í fundargerð

Atvinnuvega- og
Nýsköpunarráðuneytið
Skúlagötu 4
101 ReykjavíkSvör sveitarstjórnar Breiðdalshrepps við spurningum frá starfshópi Atvinnuvega-og Nýsköpunarráðuneytis um stefnumótun í fiskeldi dags. 14. feb. 2017.

Spurningarnar miðast við fiskeldi í sjó. Á Breiðdalsvík hafa ekki verið kynntar áætlanir um fiskeldi í sjó og er einasta sveitarfélagið frá Seyðisfirði til Djúpavogs sem þannig háttar, en ljóst er að risavaxin áform fiskeldis í opnum sjókvíum upp á 90 þúsnd tonna ársframleiðslu í nágrannafjörðum mun hafa umtalsverð áhrif á ýmsum sviðum á Breiðdalsvík, ekki síst á umhverfi, nytjar og ár. Viðkomandi spurningar virðast eiga fyrst og fremst við þau sveitarfélög sem fóstra sjókvíaeldi eða eiga að gera. Eigi að síður vill sveitarstjórn Breiðdalshrepps koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

1. Að metinn verði gaumgæfilega skaði og tjón sem fiskeldi í sjó getur valdið í ljósi reynslu nágrannalandanna og íslenskra aðstæðna, og stefnumótun taki mið af þeirri reynslu.

2. Að fyrir liggi nákvæmlega hver beri ábyrgð og bæti fyrir tjón sem fiskeldið veldur. T.d. á lífríkinu þ.m.t. á strandsvæðum vegna mengunar með áhrifum á fuglalíf og nytjar þess, uppeldis-og veiðisvæði sjávarfiska vegna úrgangs og lyfjanotkunar við eldið, sömuleiðis vegna tjóns sem sleppingar fiska af norskum og kynbreyttum stofni valda með því að blandast villtum stofnum í íslenskum ám.

3. Í Breiðdal er Breiðdalsá með hliðarám sínum, gjöful lax-og silungsveiðiá með 700 laxa meðalveiði síðastliðin ár. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í uppbyggingu m.a. við ræktun í samstarfi við Veiðimálastofnun, byggingu veiðihúss og lagningu vega. Veiði vatnafiska er mikilvæg kjölfesta í ferðaþjónustu í Breiðdal og veitir mörgum atvinnu.

4. Tryggja verður sveitarfélagi skipulagsvald á öllu sínu hafsvæði innan fjarða og víkur. Sömuleiðis að sveitarfélag geti haft aðkomu að ákvörðunum nágrannasveitarfélaga, þegar fyrirséð er að hafi umtalsverð áhrif eins og gildir um umfangsmikið fiskeldi.

5. Þrátt fyrir að lengi hafi verið í undirbúningi risavaxin laxeldisáform í austfirskum fjörðum, þá er hér í fyrsta skipti leitað álits Breiðdalshrepps um þau áform að hálfu stjórnvalds með beinum og formlegum hætti. Það segir meira en mörg orð.

6. Um fram allt að við ákvörðun um stefnumótun vegna fiskeldis í opnum sjókvíum verði beitt ítrustu varfærni og skoðað gaumgæfilega hvort aðrir valkostir henti betur eins og landeldi og eldi með geldan fisk. Fiskeldi í opnum sjókvíum er afar viðkvæm starfsemi sem getur valdið óafturkræfum náttúru-og eignaspjöllum, ekki síst fyrir óskylda aðila. Einnig er brýnt að stefnumótun taki mið af arðsemi útfrá alþjóðlegum stöðlum um sjálfbærni og vistvæn skilyrði og samræmist markmiðum nýrra náttúrverndarlaga.

F.h. Breiðdalshrepps,

Sif Hauksdóttir, verkefnastjóri