7. fundur 2017

Sjöundi fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2017 var haldinn miðvikudaginn 7. júní 2017. Hann hófst kl. 17:00 og fór fram í fundaherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Arnaldur Sigurðsson og Helga Hrönn Melsteð. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:
Starfsemi Ísfisks ehf á Breiðdalsvík, framtíðarhorfur
Oddviti kynnti niðurstöðu fundar sem hann og verkefnastjóri áttu með Albert Svavarssyni forstjóra Ísfisks 30. maí sl. Niðurstaða þess fundar varð að óska eftir sameginlegum fundi Breiðdalshrepps og Ísfisks með Byggðastofnun. Sá fundur fer fram á morgun. Frá þessum fundi hafi ýmsir möguleikar varðandi framhald fiskvinnslu á Breiðdalsvík verið ræddir, þeir voru kynntir á fundinum og er það eindreginn vilji sveitarstjórnar Breiðdalshrepps að reynt verið til þrautar að ná samkomulagi um áframhaldandi starfsemi Ísfisks á Breiðdalsvík.

RARIK - ný aðveitustöð á Breiðdalsvík 
RARIK áformar að setja upp nýja aðveitustöð á Breiðdalsvík á næsta ári. Hún kæmi í stað núverandi aðveitustöðvar við Ormsstaði. Fulltrúi RARIK kynnti fulltrúum sveitarstjórnar málið í ársbyrjun 2016 og nú hefur borist nýtt bréf frá Andra Páli Hilmarssyni, sem er deildarstjóri fasteigna hjá RARIK.
Sveitarstjórn samþykkir áformin fyrir sitt leyti, en felur byggingarfulltrúa og skipulagsnefnd að útfæra tillögur sem lagðar verða fyrir sveitarstjórn, m.a. að unnið verði og auglýst deiliskipulag fyrir lóðina.

Erindi frá Kvenfélaginu Hlíf vegna Lækjarkots 
Sveitarstjórn samþykkir að kaupa hús Kvenfélagsins, Lækjarkot á uppsettu verði,
og stefnir að því að húsið verði áfram á sama stað og því verði sýndur fullur sómi með viðhaldi og góðri umgengni. Sveitarstjórn sendir Kvenfélaginu Hlíf kærar þakkir fyrir dugnað og velvilja í garð íbúa Breiðdals um langt árabil.
Kvenfélaginu stendur til boða að nýta húsið vegna starfsemi sinnar, sem hentar húsinu, í samráði við fulltrúa Breiðdalshrepps.

Bréf frá form. Umf. Hrafnkels Freysgoða vegna frisbígolfvallar 
Sveitarstjórn fellst á að veita Umf. Hrafnkeli Freysgoða umbeðinn 100 þús kr. styrk til að setja upp frisbígolfvöll á 80 ára afmælisári félagsins. Hafa skal fullt samráð við sveitarstjórn um staðsetningu vallarins. Í tilefni afmælisins ákvað sveitarstjórn jafnframt að færa félaginu afmælisgjöf að upphæð 100.000 kr. sem renni til félagsstarfsins.

Umgengnismál á Breiðdalsvík – staða mála
Á íbúafundi í gær var talsvert rætt um umhverfismál og er þeirri umræðu fagnað og stefnt að því að gera þorpið snyrtilegt á næstunni. Auglýstur hefur verið umhverfisdagur á Breiðdalsvík 13. Júní nk.

Aðalfundur SSA á Breiðdalsvík dagana 29. og 30. september nk.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fer fram á Breiðdalsvík í haust, nánar til tekið dagana 29. og 30. september. Undirbúningur er þegar hafinn og verefnalisti liggur fyrir. Breiðdalshreppur munn leggja metnað í að þetta þing verði sem veglegast.

Bréf til sveitarstjórnar

  • Ákvörðun ríkisskattstjóra um breytingu á endurg. VSK                                                                                                                
  • Úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla 2017
  • Fundargerð 9. fundar stjórnar SSA 16. maí 2017
  • Sjúkraþyrlur á Austurlandi-svar frá HSA 

Bréfin lögð fram til kynningar.

Önnur mál

Bláklukka, félag eldri borgara í Breiðdal
Félagið hélt nýlega aðalfund og er starfsemi félagsins með blóma, en aðsetur þess er í húsnæði Dagvistar aldraðra. Margir félaganna leggja þessari starfsemi lið með framlögum í ýmsu formi. Nýlega tóku þau Guðríður Gunnlaugsdóttir og Þröstur Þorgrímsson að sér að skipta um áklæði á stólum í grunnskólanum og gerðu það með miklum sóma. Þau ánöfnuðu Bláklukku síðan allri upphæðinni sem þau fengu greidda fyrir verkið og studdu þar með við uppbyggingu félagsstarfs fyrir eldri borgara. Sveitarstjórn þakkar stuðninginn sem nýtast mun öllum eldri borgurum byggðarlagsins.

Afmæliskveðjur
Oddviti greindi frá því að hann hefði sent þeim hjónum Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðjóni Sveinssyni fv. oddvita afmæliskveðju, blómvönd og geisladiska frá Breiðdælingum í tilefni stórafmæla þeirra hjóna í maí sl.

Verkefnastjóri upplýsti að Hákon Hansson hefði fært skólanum sýningartjald að gjöf.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18,30

Fundargerð ritaði Hákon Hansson

_________________________                                                          _______________________

Hákon Hansson                                                                                  Gunnlaugur Stefánsson

__________________________                                                           ______________________

Svandís Ingólfsdóttir                                                                            Arnaldur Sigurðsson

__________________________                                                             ______________________

Sif Hauksdóttir                                                                                    Helga Hrönn Melsteð