8. fundur 2017

Áttundi fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2017 var haldinn miðvikudaginn 23. ágúst 2017. Hann hófst kl. 17:30 og fór fram í fundaherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Helga Hrönn Melsteð og Elís Pétur Elísson. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Starfsemi Ísfisks ehf á Breiðdalsvík, framtíðarhorfur.
Oddviti greindi frá samtali við Sigurð Árnason starfsmann Byggðastofnunar. Ljóst er að byggðakvótinn verður auglýstur fyrir komandi fiskveiðiár, þar sem slitnað hefur upp úr samstarfi útgerðarmanna á Breiðdalsvík og Ísfisks og Ísfiskur hefur sagt sig frá gildandi samningi. Sveitarstjórn er sammála um að mikilvægt sé að samstaða náist um áframhaldandi útgerð og fiskvinnslu á Breiðdalsvík, a.m.k. meðan reglum verður ekki breytt.

2. RARIK – umsókn um aðveitustöð á Breiðdalsvík
Farið var yfir stöðu mála, enda náðist ekki samstaða um á síðasta fundi um afgreiðslu á umsókn frá RARIK um staðsetningu aðveitustöðvar við Breiðdalsvík.
Formaður skipulagsnefndar kynnti málið á fundi nefndarinnar í sumar, en þar náðist heldur ekki samstaða um málið. Málið reifað á þessum fundi, oddviti sýndi myndir af hugsanlegri staðsetningu og samþykkt var að taka endanlega ákvörðun á næsta fundi sveitarstjórnar 11. september n.k.

3. Aðalfundur SSA á Breiðdalsvík dagana 29. og 30. september nk.
Í ár er komið að Breiðdælingum að halda aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og verður fundurinn í frystihússal Hótels Bláfells dagana 29. og 30. september. Verkefnastjóri og oddviti hafa unnið að undirbúningi í samvinnu við stjórnarformann SSA og áður Björgu Björnsdóttur sem lét nýlega af störfum sem verkefnastjóri sveitarstjórnarmála hjá Austurbrú. Greint var frá stöðu mála og rætt hvernig best verður staðið að móttöku gesta okkar.

4. Viðaukar við fjárhagsáætlun fyrir 2017 vegna framkvæmda sumarsins
Nauðsynlegt er að vinna viðauka við fjárhagsáætlun Breiðdalshrepps fyrir 2017 vegna ýmissa framkvæmda sem ráðist verður í í sumar/haust. Verkefnastjóra falið að vinna drög að viðaukum og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar 11. september n.k.

5. Erindi sveitarstjórnar til Vegagerðarinnar, Samgönguáætlun 2018-2021 
Verkefnastjóri og oddviti sendu erindi til Vegagerðarinnar vegna Breiðdalsvíkur-hafnar, en nú er unnið að samgönguáætlun fyrir 2018 til 2021 og hafði borist erindi frá Vegagerðinni, þar sem óskað var eftir umsókn frá Breiðdalshreppi.
Einnig óskaði formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis efir áherslum sveitarstjórnar vegna vegamála í Breiðdal, sömuleiðis fyrir samgönguáætlun. Fyrirvari var lítill sem enginn og okkur gert að skila inn tillögum samdægurs. Oddviti sendi inn erindi um helstu áherslur okkar um úrbætur í Breiðdal.

5. Úttekt RHA – Útreikningar vegna ákv. kostnaðarliða hjá Breiðdalshreppi
Úttekt Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri (RHA) er nú í fullum gangi og starfsmenn RHA heimsóttu Breiðdalsvík í síðustu viku. Var farið yfir stöðu mála og áherslur sveitarstjórnar varðandi þessa úttekt. Oddviti og verkefnastjóri greindu frá stöðunni, en tengiliður okkar í verkefninu er Björn Hafþór Guðmundsson, sem ber hitann og þungann af allri gagnaöflun og samskiptum við RHA.

6. Flögufoss – synjun frá Ferðamálastofu, endurgreiðsla á styrk (fskj.2)
Á árinu 2012 fékk þáverandi sveitarstjórn 750 þús króna styrk frá Ferðamálasjóði til að skipuleggja og setja upp gönguleið að Flögufossi. Styrkurinn var móttekinn en notaður í önnur verkefni. Ítrekað hefur verið sótt um frest til að koma verkinu á rekspöl, en nú hefur Ferðamálasjóður gert kröfu um endurgreiðslu á styrknum og fellst ekki á að veita frekari fresti til að ljúka verkinu. Ekki virðist önnur leið fær nú en að endurgreiða styrkinn, en þess er vænst að fyrirgreiðsla fáist aftur þegar ráðist verður í þessa aðkallandi vinnu.

7. Starfsmannamál
Oddviti og verkefnastjóri fóru yfir stöðu mála, en verkstjóri í áhaldahúsi hefur sagt upp starfi sínu og lætur af störfum 30. nóvember nk. Málin rædd og verða frekar yfirfarin og tillögur kynntar á næsta fundi sveitarstjórnar.

8. Ókeypis námsgögn fyrir nemendur grunnskóla
Sveitarstjórn samþykkir að hafa sama hátt á og á síðasta skólaári, að sjá nemendum í grunnskólanum fyrir ókeypis nauðsynlegum námsgögnum.

9. Uppsetning á raforkutengi fyrir rafbíla
Verkefnastjóra falið að finna hentugan stað fyrir raforkutengið sem sveitarfélagið fékk að gjöf í vor.

10. 8 mánaða milliuppgjör fyrir Breiðdalshrepp 2017
Sveitarstjórn samþykkir að fá KPMG til að vinna 8 mánaða milliuppgjör í samvinnu við starfsmenn Breiðdalshrepps til að fá sem gleggst yfirlit yfir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

11. Bréf til sveitarstjórnar
Frestað til næsta fundar

12. Önnur mál
a) Starfshópur um byggðakvóta
Oddviti sat lokafund starfshóps um byggðakvóta, sem haldinn var á Breiðdalsvík 11. júlí sl. Þar kynnti starfshópurinn tillögur sínar um breytt fyrirkomulag á úthlutun byggðakvóta og hugmyndir um lengri samningstíma, til allt að 10 ára og fleiri kosti á ráðstöfun byggðakvóta í samráði og samstarfi við sveitarstjórnir.
Tillögur hópsins hlutu misjafnar undirtektir og helst var fundið að því að byggðarlög sem höfðu orðið fyrir áföllum í úrgerð og fiskvinnslu voru að tapa kvóta skv. útreikningum starfshópsins. Skv. tillögum hópsins minnkar byggðakvóti Breiðdalshrepps um 90 tonn á ári.
Gefinn var kostur á að senda athugasemdir við skýrslu starfshópsins fyrir 1. ágúst og senda til ANR. Oddviti sendi inn ítarlega athugasemd og leggur hana fram á þessum fundi sveitarstjórnar. Eftir á að koma í ljós hvaða afstöðu ráðuneytið tekur við endurskoðun á reglum um byggðakvóta.


Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 19,30
Fundargerð ritaði Hákon Hansson


______________________                            ______________________
Hákon Hansson                                               Gunnlaugur Stefánsson


____________________                               _____________________
Svandís Ingólfsdóttir                                       Elís Pétur Elísson


____________________                              _________________
Sif Hauksdóttir                                              Helga Hrönn Melsteð