1. Fundur 2018

Fyrsti fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2018 var haldinn mánudaginn 8. janúar 2018. Hann hófst kl. 20:00 og fór fram í fundaherbergi sveitarfélagsins í Grunnskóla Breiðdalshrepps.

Mætt voru: Hákon Hansson, Svandís Ingólfsdóttir, Helga Hrönn Melsteð, Arnaldur Sigurðsson og Elís Pétur Elíssson. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.
Gunnlaugur Stefánsson boðaði forföll.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
Dagskrá:
1. Málefnasamkomulag samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélag 
Sameining sveitarfélaganna Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar.
Fyrri umræða.
Sveitarstjórnir Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar samþykktu í nóvember 2017 að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna, samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Samstarfsnefnd hefur afhent álit sitt til sveitarstjórnanna með skilabréfi og greinargerð um störf nefndarinnar dags. 8. jan. 2018.
Skilabréfinu og greinargerðinni fylgja eftirtalin gögn:
1. Fundargerðir samstarfsnefndarinnar.
2. Málefnasamkomulag, frágengið og skilað til sveitarstjórna 8. jan. 2018
3. Kynningarefni (tillaga SSN um helstu atriði)
4. Tillaga um útlit og texta kjörseðla
5. Tillaga um opinbera auglýsingu í Lögbirtingarblaði o. fl. miðlum um atkvæðagreiðsluna.
Samstarfsnefndin kom saman á 6 bókuðum fundum og liggja fundargerðir nefndarinnar fyrir á fundi sveitarstjórnar.
Samstarfsnefnd leggur til að atkvæðagreiðsla meðal íbúa um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna fari fram laugardaginn 24. mars 2018.
Fulltrúar Breiðdalshrepps í samstarfsnefnd fóru ítarlega yfir störf nefndarinnar og þau fylgiskjöl sem lögð eru fram sbr. fundarboð og liði 1 til 5 hér að ofan.
Afgreiðsla: Sveitarstjórn vísar málinu til seinni umræðu mánudaginn 15. jan. 2018 sbr. 2. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

2. Tvö bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dags. 5. janúar 2018
Kynnt voru á fundinum tvö bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, bæði dagsett
5. janúar 2018. Í fyrra bréfinu samþykkir ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á fundi sínum 14. desember 2017 úthlutun framlags vegna könnunar á hagkvæmni sameiningar sveitarfélaganna Breiðdalshrepps og Fjaðrabyggðar. Upphæð framlagsins kemur fram í fylgiskjali með fundargerð.
Seinna bréfið fjallar um afgreiðslu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 4. janúar 2018 en þar var lagt fram til umfjöllunar og afgreiðslu erindi samstarfsnefndar um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar.
Í seinna bréfinu koma fram útreikningar á skuldajöfnunarframlagi verði af sameiningu. Endanlegur útreikningur skuldajöfnunarframlaga mun byggja á ársreikningum sveitarfélaganna árið 2017. Í bréfinu er einnig lagt fram yfirlit um mögulega aðkomu sjóðsins vegna framlaga til þróunar og endurskipulagningar á stjórnsýslu í sameinuðu sveitarfélagi. Í þeim útreikningi er miðað við fyrri fordæmi við sameiningu sveitarfélaga. Loks er farið yfir greiðslu framlag avegna skerðingar á tekju- og útgjaldajöfnunarframlögum í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna. Er það í samræmi við reglur sjóðsins.
Frekari upplýsingar eru í fylgiskjali.

3. Fundargerðir samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfél.  
Á fundinum voru lagðar fram fundargerðir samstarfsnefndar nr. 4 til 6. Fundargerðir 1 til 3 höfðu áður verið kynntar. Einnig fundargerð símafundar sem fram fór 20. desember, en þá funduðu formaður og varaformaður nefndarinnar ásamt starfsmanni hennar.
4. Erindi vegna deiliskipulags fyrir lóð undir aðveitustöð RARIK 
Oddviti kynnti tillögu að skipulagslýsingu og tillögu að deiliskipulagi frá Rarik vegna fyrirhugaðrar Aðveitustöðvar RARIK við Breiðdalsvík.
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að tillaga að skipulagslýsingu verði unnin áfram ásamt deiliskipulagstillögu og að leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila á skipulagslýsingunni og hún í framhaldinu kynnt fyrir almenningi. Samþykkt að skipulagsfulltrúi vinni málið áfram í samvinnu við sveitarstjórn og skipulagsnefnd.
5. Bréf og erindi til sveitarstjórnar
a) Tilkynning - yfirfærsla húsnæðisbóta til Íbúðalánasjóðs 
b) 138. fundargerð Heilbrigðisnefndar Austurlands 
c) Endurheimt varðv. votlendis - bréf 
d) Reglub. eftirl. á urðunarst. Heydalamelum (fskj.8)
Lagt fram til kynningar.
6. Önnur mál
a) Umsókn um starf verkstjóra í áhaldahúsi (fskj.6)
Aðeins barst ein umsókn og er verkefnastjóra falið að ganga frá ráðningarsamningi við Arnþór Inga Hermannsson.
b) Erindi frá Brú lífeyrissjóði vegna lífeyrisskuldbindinga (fskj.9)
Samþykkt að fela verkefnastjóra að kanna þá möguleika sem eru fyrir hendi varðandi greiðslu umræddrar upphæðar. Jafnframt verði undirbúinn viðauki við Fjárhagsáætlun Breiðdalshrepps 2018 vegna umræddrar kröfu lífeyrissjóðssins.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
c) Bréf frá Mannvirkjastofnun dags 3.1. 2018 vegna Brunavarnaáætlunar (fskj.10)
Verkefnastjóra falið að yfirfara málið með slökkviliðsstjóra. Sótt verði um frest vegna mögulegrar sameiningar slökkviliða Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps.
Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 22,25
Fundargerð ritaði Hákon Hansson
______________________                                                                     ______________________
Hákon Hansson                                                                                        Svandís Ingólfsdóttir


____________________                                                                           _____________________
Helga Hrönn Melsteð                                                                                 Arnaldur Sigurðsson


___________________                                                                            _____________________
Sif Hauksdóttir                                                                                           Elís Pétur Elísson