11. Fundur 2018

Ellefti fundur sveitarstjórnar Breiðdalshrepps árið 2018 var haldinn miðvikudaginn 6. júní 2018. Hann hófst kl. 17:30.
Mætt voru: Hákon Hansson, Gunnlaugur Stefánsson, Svandís Ingólfsdóttir og Arnaldur Sigurðsson. Einnig Sif Hauksdóttir verkefnastjóri.
Helga Hrönn Melsteð boðaði forföll sem og Elís Pétur Elísson fyrsti varamaður.
Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna, en um er að ræða síðasta fund á kjörtímabili núverandi sveitarstjórnar Breiðdalshrepps. Fundurinn er jafnframt sá síðasti fyrir sameiningu við Fjarðabyggð

Dagskrá:

1. Innviðauppbygging í Breiðdalshreppi 2018 til 2022 
Lögð fram 6. og síðasta fundargerð stjórnar til undirbúnings sameiningar sveitarfélaga en fundurinn fór fram í morgun. Fundargerðin er kynnt á fundinum. Að kynningu lokinni staðfestir sveitarstjórn Breiðdalshrepps fundargerðina. Þar kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir að 300 milljónum kr.
sé varið til uppbyggingar innviða í Breiðdal á næstu 5 árum, þar af allt að 100 milljónum á árinu 2018.

2. Ljósleiðari – skýrsla um fornleifaskráningu 
Oddviti kynnti drög að skýrslu um Fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við ljósleiðara í Breiðdalshreppi nú í sumar. Skýrslan er unnin af Dr. Adolf Friðrikssyni fornleifafræðingi sem skilar lokaskýrslu í vikunni.
Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með vinnu Adolfs og gott samstarf á undanförnum dögum.

3. Erfðasjóðir Hildar Eiríksdóttur og Jóns Einarssonar. 
Oddviti greindi frá samtali við Magnús Jónsson lögg. endurskoðanda hjá KPMG og sýndi svar hans við spurningu um erfðasjóðina. Í bréfi Magnúsar kemur m.a. fram að úthlutun úr sjóðunum eða ákvörðum um að fela öðrum umsjón með sjóðunum hefur engin áhrif á rekstur sveitarfélagsins því í bókum þess er bæði færð bankainnstæða sem eign og skuldbinding sem skuld. Samþykkt að erfðasjóðirnir standi óbreyttir og það verði verkefni nýrrar bæjarstjórnar að ráðstafa þeim.

4. Erindi frá stjórn Íbúðalánasjóðs 
Oddviti greindi frá samskiptum við ÍLS á undanförnum dögum í framhaldi af beiðni um að senda stjórn frekari gögn vegna ákvörðunar um niðurfellingu hluta skulda Breiðdalshrepps vegna félagslegra íbúða. Málið er í réttum farvegi og tilbúið til afgreiðslu á fundi stjórnar ÍLS 26.6. nk.

5. Önnur mál
a) Vegagerðin- þjóðvegir í þéttbýli 
Drög að samkomulagi við Vegagerðina um skil sk. skilavega til Breiðdalshrepps flytjast til nýrrar bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og verða hluti af heildarsamkomulagi Fjarðabyggðar við Vegagerðina um skilavegi.
b) Íbúafundur
Samþykkt að halda íbúafund þriðjudaginn 12. júní kl.20,00
Þar mun fráfarandi sveitarstjórn greina frá verkefnum síðustu mánaða liðins kjörtímabils.

c) Gjafir til grunnskóla
Verkefnastjóri greindi frá gjöfum sem grunnskólanum hafa borist frá velunnara skólans m.a. tölvur, sjónvarp, sýningartjald og smarttafla.
Sveitarstjórn þakkar góðar gjafir.

d) Lok kjörtímabils
Þar sem kjörtímabili sveitarstjórnar er lokið og sameining Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar að taka gildi þakkaði oddviti fulltrúum í sveitarstjórn Breiðdalshrepps svo og verkefnastjóra sveitarstjórnaramála og öllum öðrum starfsmönnum Breiðdalshrepps frábært samstarf og samvinnu á undanförnum fjórum árum. Hann færir íbúum Breiðdalshrepps þakkir fyrir stuðning í mikilvægum verkefnum og óskar Breiðdælingum svo og öðrum íbúum nýrrar Fjarðabyggðar gæfu og velfarnaðar á komandi árum.
Nýrri bæjarstjórn Fjarðabyggðar eru færðar árnaðaróskir með þá von í brjósti að framtíð Fjarðabyggðar verði björt.
Fundarmenn tóku undir orð oddvita og þakka samstarfið.
Fundi slitið kl. 18,27


Fundargerð ritaði Hákon Hansson

______________________                                                                                        ______________________
Hákon Hansson                                                                                                          Gunnlaugur Stefánsson


____________________                                                                                          _____________________
Svandís ingólfsdóttir                                                                                                  Arnaldur Sigurðsson


___________________
Sif Hauksdóttir