MÁLEFNASAMKOMULAG


Fulltrúar Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar í samstarfsnefnd vegna kosninga um sameiningu þessara sveitarfélaga gera með sér neðangreint samkomulag um fyrirkomulag einstakra rekstrarþátta í sveitarfélögunum. Með orðalaginu „fyrirkomulag“ er átt við, hvernig menn eru sammála um að hlutum verði fyrir komið í byrjun. Jafnframt leggja þeir áherslu á, að komandi sveitarstjórnum í sameinuðu sveitarfélagi beri að leita leiða til að virða samkomulagið til frambúðar, þó að teknu tilliti til ákvæða sveitarstjórnarlaga um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna.

Í samstarfsnefndinni sátu:
Frá Breiðdalshreppi Frá Fjarðabyggð
Hákon Hansson, Jón Björn Hákonarson,
Svandís Ingólfsdóttir, Eydís Ásbjörnsdóttir,
Gunnlaugur Stefánsson, Jens Garðar Helgason,
Sif Hauksdóttir. Páll Björgvin Guðmundsson / Gunnar Jónsson
Samkomulagið hér að neðan byggir á því að sameiningartillaga verði samþykkt.

1. Almennt:
Áhrif sameiningar sveitarfélaganna.

Hið sameinaða sveitarfélag tekur yfir allt það land sem nú tilheyrir áðurgreindum sveitarfélögum og íbúar beggja sveitarfélaga verða þegnar hins sameinaða sveitarfélags. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur sem tilheyra sveitarfélögunum falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn beggja sveitarfélaga verða afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu.

Núgildandi samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar verður lögð til grundvallar yrir hið sameinaða sveitarfélag þar til það hefur sett sér nýja samþykkt.

Hið sama gildir um aðrar reglur og samþykktir Fjarðarbyggðar eftir því sem við á.
Hið sameinaða sveitarfélag mun bera heitið Fjarðabyggð og verður heimilisfang þess að Hafnargötu 2, 730 Fjarðabyggð.
Kosið verður til sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags laugardaginn 26. maí 2018, sbr. ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998,
Í sveitarstjórnarkosningum 2018 verða 9 fulltrúar í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
Að öðru leyti munu gilda um samrunann ákvæði 12. kafla sveitarstjórnarlaga
Stjórn málaflokka: Ákvarðanir hvorrar sveitarstjórnar fyrir sig um reglugerðir, gjaldskrár o.fl. sem samþykktar voru við afgreiðslu fjárhagsáætlana sveitarfélaganna fyrir árið 2018 gilda á meðan ný sveitarstjórn undirbýr nýjar reglugerðir, samþykktir (aðrar en samþykkt um stjórn og fundarsköp) og gjaldskrár, þó aldrei meira en í 3 mánuði frá gildistöku sameiningar. Ef ákvæði um skatta verður ekki breytt innan ársins vegna ákvæða annarra laga er heimilt að hafa mismunandi reglur innan hins nýja sveitarfélags þann tíma sem af ákvæðum annarra laga hlýtur, en þó að hámarki til áramóta 2018.

2. Málaflokkar sem nú þegar falla undir samstarfsverkefni eða verktöku hjá Fjarðabyggð:

Í öllum samstarfsverkefnum t.d. á fjórðungsgrundvelli, þar sem bæði sveitarfélög eiga aðild í dag, mun aðildin flytjast yfir á nafn Fjarðabyggðar.
Í málaflokkum þar sem í dag er til staðar samstarf sveitarfélagana m.a. á sviði félagsmála og vegna brunavarna verður starfseminn feld undir hlutaðeigandi málaflokka Fjarðabyggðar

3. Málaflokkar, sem ekki heyra undir verktöku eða samstarfsverkefni:

Nefndin er sammála um að eftirtaldir rekstrarþættir í Breiðdalshreppi verði sem hér greinir. (Í upptalningunni er miðað við röðun málaflokka og sjóða eftir bókhaldskerfi sveitarfélaga, sbr. vinnublað sem legið hefur fyrir á fundum SSN)
a) Félagsmál: Dagvist aldraðra verður rekin áfram á Breiðdalsvík í sama formi
b) Heilbrigðismál: Eignarhlutur Breiðdalshrepps í 2 eignum á Djúpavogi, sem heyra undir málaflokkinn færist yfir á Fjarðabyggð. Engar aðrar breytingar
c) Fræðslu- og uppeldismál:
Leikskóli verður áfram á Breiðdalsvík.
Tónlistarskóli. Boðið verður áfram upp á tónlistarnám á Breiðdalsvík.
Grunnskóli: Gert er ráð fyrir því að sameina stjórnun grunn- og leikskóla á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík undir einn skólastjóra.
Leikskólastarf á Breiðdalsvík verður flutt í grunnskólahúsnæðið á Breiðdalsvík.
Gert er ráð fyrir kennslu í grunnskólunum á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Nánari útfærsla á samkennslu verði rædd og útfærð í samráði við foreldra, forráðamenn og fagaðila með það að markmiði að efla faglega og félagslega stöðu nemenda

d) Menningarmál: Bókasafn verður áfram á Breiðdalsvík og mun fljótlega verða hluti af þjónustugátt Fjarðabyggðar.Menningarstyrkir verða hluti af núverandi kerfi Fjarðabyggðar

e) Æskulýðs- og íþróttamál: Sundlaug og íþróttahús verða rekin áfram á Breiðdalsvík með svipuðu sniði og verið hefur. Hið sama gildir um félagsmiðstöð barna og ungmenn


f) Brunamál- almannavarnir: Slökkvistöð verður áfram á Breiðdalsvík og þar til staðar mannað slökkvilið, sem yrði hluti af slökkviliði Fjarðabyggðar og félli undir stjórn þess.

g) Hreinlætismál: Í dag er sorp úr Breiðdalshreppi urðað á svonefndum Heydalamelum. Núgildandi starfsleyfi rennur út 1. júlí 2018. Aðilar samkomulagsins eru sammála um að leita hagkvæmustu leiða til að leysa þessi mál áfram í byggðarlaginu. Þjónustan verði samræmd því sem er annars staðar í Fjarðabyggð.

Kannað verður hjá Umhverfisstofnun, hvort hægt sé að fá undanþágu til að starfrækja sorpurðun á Heydalamelum í a.m.k. 1 ár í viðbót í óbreyttu formi. Gámavöllur (Þórðarhvammur) verður áfram til staðar með föstum opnunartímum

h) Skiplags- og byggingarmál. Fjarðabyggð rekur sérstakt svið til að sinna þessum málaflokki. Við sameiningu falla Skipulags- og byggingarmál Breiðdalshrepps undir skipulags- og byggingafulltrúa Fjarðabyggðar

i) Umferðar- og samgöngumál. Ekki eru sjáanlegar neinar breytingar í þessum málaflokki hvað varðar þjónustu í byggðarlögunum

j) Atvinnumál. Þátttaka Breiðdalshrepps í verkefninu Brothættar byggðir mun halda áfram eins lengi og samningur kveður á um. Aðilar gera sér grein fyrir sérstöðu Breiðdals sem landbúnaðarhéraðs. Landbúnaðar- málum mun verða sinnt á sambærilegan hátt í öllum byggðarlögunum. Hvað varðar refa- og minkaveiðar mun þeim málaflokki verða sinnt á sambærilegan hátt í öllum byggðarlögunum

k) Skrifstofuhald: Skrifstofa á Breiðdalsvík verður til staðar til ársloka 2018. Bókhald, launa- og skjalaumsýsla verður hluti af sameiginlegri stjórnsýslu við sameiningu.

l) Áhaldahús verður starfrækt áfram á Breiðdalsvík og mun falla undir sameiginlega þjónustu- og framkvæmdamiðstöð Fjarðabyggðar frá sameiningardegi. Áfram verður starfræktur vinnuskóli á Breiðdalsvík.

m) Starfsemi Eignasjóðs mun heyra undir Fjarðabyggð

n) Höfn verður áfram starfrækt á Breiðdalsvík, en aukið samstarf milli hafnar og áhaldahúss. Dagleg starfsemi verður samþætt í þjónustu- og framkvæmdamiðstöð Fjarðabyggðar frá sameiningardegi

o) Unnið hefur verið að því að selja Félagslegar íbúðir á Breiðdalsvík. Áfram verður unnið að úrlausn þess máls í samkomulagi við ríkisvaldið um aðgerðir tengdar sameiningarferlinu

p) Veitustarfsemi Breiðdalshrepps (Vatns- og Fráveita) mun falla undir veitusvið Fjarðabyggðar.

KOSNING UM SAMEININGU BREIÐDALSHREPPS OG FJARÐABYGGÐAR

Ákveðið hefur verið að fram fari kosning meðal íbúa Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar laugardaginn 24. mars 2018 um sameiningu sveitarfélaganna.

Í nóvember 2017 skipuðu sveitarstjórnir sveitarfélaganna hvor fyrir sig fulltrúa í samstarfsnefnd um sameiningu. Hefur nefndin skilað áliti ásamt skýrslu þar sem fram koma ýmsar upplýsingar um málið.

Kosning íbúa sveitarfélaganna fer samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar verður hjá sýslumönnum og fljótlega auglýst, hvenær hún getur hafist.

Á þessari síðu munu birtast upplýsingar um framkvæmd kosningana um leið og þær liggja fyrir.

KJÖRSEÐILINN
Til að sameining nái fram að ganga þarf að verða meirihluti atkvæða með tillögunni í hvoru sveitarfélagi fyrir sig. Spurningin á atkvæðaseðlinum verður einföld:

Ert þú samþykk / samþykkur sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar ?

Lykiltölur

Ársreikningar og lykiltölur

Ársreikningar sveitarfélagana fyrir árið 2017 liggja ekki enn fyrir og hér á eftir eru því birtar ýmsar lykiltölur úr ársreikningum þeirra fyrir árið 2016.

Hlutfall af tekjum:  

Sveitarsjóður A- hluti: Breiðdalshreppur Fjarðabyggð Mismunur (B – F)
Skatttekjur 83% 83% 0%
Laun, launatengd gj. og lífeyrissj. 51% 62% 11%
Veltufé frá rekstri 15% 10% -5%
Fjárfestingahreyfingar -6% -11% -5%
Skuldir, án skuldbindinga 92% 136% 44%
Skuldir og skuldbindingar 97% 180% 83%
Samantekið, A- og B- hluti: Breiðdalshreppur Fjarðabyggð Mismunur (B – F)
Skatttekjur 73% 62% -11%
Laun, launatengd gj. og lífeyrissj. 50% 51% 1%
Veltufé frá rekstri 18% 19% 1%
Fjárfestingahreyfingar -5% -14% -9%
Skuldir, án skuldbindinga 137% 107% -30%
Skuldir og skuldbindingar 141% 143% 2%

 

Sveitarsjóður, A- hluti (Kr. á íbúa) Breiðdalshreppur Fjarðabyggð Mismunur (B – F)
Tekjur 1.064.352 992.099 -72.253
Laun, launatengd gj. og lífeyrissj. 547.363 614.837 67.474
Önnur rekstrargj. og afskriftir 361.808 347.431 -14.377
Fjármagnsliðir -39.984 -43.722 -3.738
Óreglulegir liðir 0 0 0
Rekstrarniðurstaða 2016 115.198 -13.891 -129.089
Samant., A- og B- hl. (Kr. á íbúa) Breiðdalshreppur Fjarðabyggð Mismunur (B – F)
Tekjur 1.197.940 1.323.702 125.762
Laun, launatengd gj. og lífeyrissj. 604.654 668.858 64.204
Önnur rekstrargj. og afskriftir 404.286 520.394 116.108
Fjármagnsliðir -65.907 -57.682 8.225
Óreglulegir liðir 0 3.858 3.858
Rekstrarniðurstaða 2016 123.093 80.627 -42.466
Sveitarsjóður, A- hluti (Kr. á íbúa) Breiðdalshreppur Fjarðabyggð Mismunur (B – F)
Veltufé frá rekstri 164.560 103.063 -61.497
Fjárfestingahreyfingar -62.242 -106.004 -43.762
Eignir 1.071.692 1.849.656 777.964
Skuldir, án skuldbindinga 978.132 1.348.750 370.618
Skuldir og skuldbindingar 1.031.000 1.790.217 759.217
Samantekið, A- og B- hl. (Kr. á íb.) Breiðdalshreppur Fjarðabyggð Mismunur (B – F)
Veltufé frá rekstri 212.637 250.017 37.380
Fjárfestingahreyfingar -64.335 -191.078 -126.743
Eignir 1.652.121 2.690.544 1.038.423
Skuldir, án skuldbindinga 1.636.445 1.422.509 -213.936
Skuldir og skuldbindingar 1.689.313 1.896.553 207.240

 

Framlag Jöfnunarsjóðs Sveitarfélaga 

Verði af sameiningu munu koma til nýja sveitarfélagsins sérstök framlög vegna hennar, allt að 680 milljónir króna, úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu 5 árum. Stærsti hlutinn er svonefnt skuldajöfnunarframlag. Endanlegir útreikningar vegna þess munu byggja á ársreikningum 2017. Jafnframt mun Jöfnunarsjóðurinn greiða framlag til þróunar og endurskipulagningar á stjórnsýslu í sameinuðu sveitarfélagi. Umtalsvert fjármagn mun renna til innviðauppbyggingar í Breiðdal og einnig til að bæta nýju sveitarfélagi upp tapaðar jöfnunarsjóðsgreiðslur í 5 ár m/v að áfram hefði verið um tvö sveitarfélög að ræða.Kostnað við störf samstarfsnefndar og sjálfa kosninguna greiðir Jöfnunarsjóðurinn, burtséð frá því hverjar niðurstöður verða.                                          
Heiti framlags: Vegna Breiðdalshr. Vegna Fjarðabyggðar Samtalskrónur.
Skuldajöfnun 24.000.000.- 450.000.000.- 474.000.000.-
Þróun og endurskipulagning     157.000.000.-
Skert tekju- og útgjaldajöfnun     50.000.000.-
    Samtals kr.: 681.000.000.-
Auk þess greiðsla vegna útlagðs kostnaðar, allt að kr. 17.000.000.-
 

Ávarp til íbúa Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar

Laugardaginn 24. mars 2018 verður kosið um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. Ef í báðum sveitarfélögum reynast fleiri kjósendur fylgjandi sameiningu en andvígir telst hún samþykkt og tekur hún gildi 10. júní 2018 eftir staðfestingu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. 

Í ársbyrjun 2017 bjuggu í Fjarðabyggð 4.691 íbúar, en í Breiðdalshreppi 182.  Að landstærð er Fjarðabyggð 1.163 km², eða tæplega þrefalt stærri en Breiðdalshreppur, sem er 452 km². Samanlagt eru þessi sveitarfélög 1.615 km² og yrðu einungis 20 sveitarfélög á Íslandi stærri að flatarmáli, komi l sameiningar. Nýtt sveitarfélag yrði í 10. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélögin á Íslandi.

Samgöngur eru ágætar á milli byggðarlaganna. Í öllum þéttbýliskjörnum í Fjarðabyggð er sjávarútvegur veigamikil atvinnugrein og hið sama gildir um Breiðdalsvík. Hefð er fyrir öflugum landbúnaði í Breiðdal og sú atvinnugrein vegur þyngra þar en í nokkru byggðarlagi Fjarðabyggðar. Ennfremur er ferðaþjónusta öflug í báðum sveitarfélögunum og í raun er hún ein af þýðingarmestu atvinnugreinum í Breiðdalshreppi. Auk þess eru vonir bundnar við þann kraft og áræðni, sem stofnun nýrra fyrirtækja í byggðarlaginu ber vott um.

Í byggðalögum Fjarðabyggðar er að finna skólastofnanir, heilsugæslu, ýmsa menningar- og félagsstarfsemi, hafna- og þjónustustarfsemi og margt fleira, sem gerir sveitarfélagið aðlaðandi til búsetu. Allt þetta á einnig við um Breiðdalshrepp.

Samstarfsnefnd á vegum sveitarfélaganna hefur undanfarið undirbúið tillögu að sameiningu, safnað upplýsingum og byggt upp áætlanir sem fela í sér hvað gerast muni, verði sameining samþykkt. Nefndin er sammála um að það feli í sér augljósa kosti fyrir svæðið í heild, ef af sameiningu verður. Eins og fram kemur í kynningarefni er ljóst að umtalsverðir opinberir fjármunir myndu fylgja í kjölfarið, bæði til niðurgreiðslu skulda beggja sveitarfélaganna og til uppbyggingar innviða í Breiðdalshreppi. Það er því skýrt álit nefndarinnar, að sameiningu muni fylgja öflugt sveitarfélag, sem verði vel í stakk búið að veita góða þjónustu til lengri tíma litið, öllum búum þess til góða. Í samstarfsnefndinni sátu eftirtalin:

Frá Breiðdalshreppi                           Frá Fjarðabyggð

Hákon Hansson,                                  Jón Björn Hákonarson,

Svandís Ingólfsdóttir,                          Eydís Ásbjörnsdóttir,

Gunnlaugur Stefánsson,                      Jens Garðar Helgason,

Sif Hauksdóttir.                                   Páll Björgvin Guðmundsson / Gunnar Jónsson.