• Þjónusta
  • Bókasafn
  • Stiklur úr sögu safnsins

Stiklur úr sögu safnsins

Bókasafn Breiðdalshrepps er elsta starfandi stofnunin á vegum sveitarfélagsins og hefur starfað óslitið frá stofnun þess 1878, utan einn til tvo vetur sem það var í kössum, fyrst undir nafni Lestrarfélags Breiðdæla en frá 1955 undir núverandi nafni. Ræturnar liggja í þeim jarðvegi sem lestrarfélögin spruttu úr, en til þeirra var stofnað af fróðleiksfúsum alþýðumönnum sem vildu efla þekkingu sína en áttu ekki kost á skólagöngu. Á þessum grunni starfa almenningsbókasöfnin enn í dag, - þ.e. að vera miðstöð þekkingar sem allir hafa jafnan aðgang að í hverju sveitarfélagi auk þess að hafa ákveðið afþreyingargildi.

Fyrsta lestrarfélag landsins var stofnað árið 1790 á Suðurlandi af Magnúsi Stephensen. Fáein félög voru stofnuð til viðbótar í kringum aldamótin 1800 en líftími þeirra var ekki langur. Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld að vakning varð í þá átt og hvert lestrarfélagið af öðru spratt upp vítt og breytt um landið.

Þann 20. maí 1878 var Lestrarfélag Breiðdæla stofnað. Einhver aðdragandi var að því og er líklegt að Ari Brynjólfsson á Þverhamri, þá á Ósi, hafi átt sinn þátt í stofnun félagsins. Stofnfundurinn var haldinn að Heydölum og til hans boðað með löglegum fyrirvara. Á þessum fundi var kosið í stjórn og lög félagsins samþykkt, en þau höfðu legið frammi á nokkrum stöðum í hreppnum til skoðunar. Magnús Magnússon Bergssonar prests í Heydölum var kjörinn fyrsti forseti félagsins og fyrsti bókavörðurinn var kosinn Gísli Högnason í Heydölum, mágur Magnúsar. Auk þess var hreppnum skipt upp í deildir og deildarstjórar kosnir fyrir hverja deild. Ein deild var frá Streiti að Fagradal, önnur frá Brekkuborg og inn úr syðra megin, þriðja frá Kleifarstekk og inn úr eystra megin, fjórða Norðurdalur allur, fimmta frá Tinnudalsá að Þverhamri og sú sjötta náði yfir Stöðvarfjörð auk Snæhvamms. Félagsmenn voru 44 í upphafi, allt karlar. Árið 1917 er fyrsta konan nefnd sem félagsmaður, - Guðlaug Pálsdóttir á Gilsárstekk, sem kom inn fyrir mann sinn.

Aðalstöðvar félagsins voru í Heydölum fyrstu árin og þar voru fundir þess haldnir framan af. Fljótlega virðist sú regla hafa komist á að hafa tvo fundi á ári, - vor og haust. Fundarstaðir voru víða eftir að þeir Heydalamenn hættu að vera í forsvari, - má þar nefna hús Breiðdalshrepps á Breiðdalsvík, tvisvar er talað um haustfundi við Tinnudalsárbrú (1910 og 1913) og í júní 1908 var haldinn fundur að Lögréttu. Þar var samþykkt tillaga um að félagið ,,gefi meðlimum sínum einu sinni kaffi". Líklega hafa þessir fundir verið haldnir í tengslum við uppboð eða samkomur. Eftir að hús UMF Breiðdæla reis að Heydölum 1914 voru nokkrir fundir haldnir þar, - oft eftir messu.

Árgjald félagsmanna var um tíma 3 krónur en lækkaði svo í 1,50. Fyrir þessar krónur voru keyptar bækur og nokkur dagblöð voru líka keypt, t.d. Þjóðólfur, Dagskrá, Austri og Lögrétta. Félagsgjöldin hrukku skammt og þá var gripið til þess að selja bækur sem allir voru búnir að lesa og ekki þótti ástæða til að varðveita. Í staðinn voru keyptar ,,nýjar og nytsamar" bækur. Bækurnar voru seldar á uppboði, - oft í tengslum við manntalsþing. Árið 1912 voru peningarnir sem þá komu inn eftir slíka sölu notaðir til að kaupa allar Íslendingasögurnar og Sturlungu. Fleiri leiðir voru notaðar til fjáröflunar og Lestrarfélagið varð eins konar lánastofnun, - þ.e. einstaklingar fengu fé að láni hjá félaginu gegn 4 - 5% vöxtum. Árið 1911 óskaði UMF Breiðdæla eftir láni frá félaginu til húsbyggingar en það var ekki samþykkt þá. Árið 1914 var hins vegar samþykkt að lána UMFB allt fé sem tilbært var, - 166 krónur og 50 aura. Þá má nefna að 1915 var einróma samþykkt að leggja hlut í Eimskipafélag Íslands, óskabarn þjóðarinnar, og er sá hlutur enn í eigu safnsins. Félagsmenn sjálfir stóðu ekki alltaf í skilum og 1915 sagði ritarinn sig úr félaginu vegna ,,óskilsemi" félagsmanna.

Árið 1909 var gerð skrá yfir bækur félagsins og reyndust þær vera 105 talsins, bæði skáldrit og fræðirit.

Safnið hafði ekki fast aðsetur fyrr en 1943 er deildarskiptingu lauk. Þá var því komið fyrir í Hamri, - þaðan fór það í gamla kaupfélagið og svo í gömlu verbúðina. Árið 1979 fluttist safnið yfir götuna, á salthúsloftið, og þaðan í Hellubæ 1985. Árið 1993 fluttist safnið svo í núverandi húsnæði og sameinaðist safni skólans.

Árið 1955 samþykkti Alþingi lög þess efnis að bókasafn skyldi starfrækt í hverjum hreppi. Lestrarfélögin lögðust smám saman niður og starfsemi þeirra fluttist yfir á sveitarfélögin og er það undir hverju sveitarfélagi komið hvað það leggur í þennan málaflokk.

Breyttir tímar kalla á aðrar og auknar kröfur á þjónustu safnanna en áður var. Hlutverk þeirra er ekki lengur eingöngu að lána út bækur heldur eiga þau að vera miðstöð þekkingar á hverjum stað þar sem allir eiga jafnan aðgang. Tækninni fleygir fram og gerir það að verkum að mun auðveldara er að nálgast upplýsingar nú en áður.

Engin spjaldskrá var til yfir safnið þegar flutt var í núverandi húsnæði. Ákveðið var að kaupa aðgang að tölvukerfinu MikroMARC og voru flest gögn safnsins skráð inn í það. Útlánaþáttur kerfisins var hins vegar ekki keyptur heldur var haldið áfram að skrá útlán upp á gamla mátann, á spjöld og í stílabækur.

Árið 1997 sameinuðust bókasöfn á Austurlandi um eitt skráningarkerfi, Feng, og markaði sú ákvörðun stórt skref í átt til framfara í þessum málaflokki í fjórðungnum, bæði gagnvart notendum og ekki síður með auknu samstarfi austfirskra safna sem hefur verið einstaklega farsælt þennan tíma sem liðinn er. Bókasafn Breiðdalshrepps tók Feng í notkun í maí 1998 og þá um sumarið var hafist handa við að tengja safngögnin í hið nýja kerfi með dyggri aðstoð krakkanna í unglingavinnunni. Útlánaþáttur kerfisins var tekinn í notkun 5. júlí 2001 og breytti það miklu fyrir starfsemi safnsins. Í nóvember 2001 varð safnið stofnaðili að Landskerfi bókasafna sem rekur bókasafnskerfið Gegni. Stefnt er að því að öll bókasöfn í landinu sameinist í eitt kerfi og á síðasta ári, 2003, tengdust fyrstu söfnin kerfinu. Næst í röðinni voru Fengssöfnin og hinn langþráði dagur rann upp nú á vordögum 2004.

Bókasöfn eru fremur hljóðlátar stofnanir sem skila ekki peningalegum arði og kannski þess vegna lenda þau aftarlega í röðinni þegar fjármagninu er skipt. Menn horfa fram hjá þeim andlega auði sem söfnin veita hverjum og einum og ekki verður metinn til fjár. Þess vegna skiptir máli að söfnin eigi góða að og er Bókasafn Breiðdalshrepps lánsamt í þeim efnum. Fyrst ber að nefna bókaverðina sem unnið hafa fórnfúst starf í gegnum tíðina við misjafnar aðstæður. Ekki má heldur gleyma almenningi sem sýnt hefur safninu hlýhug með bókagjöfum, stórum og smáum, og stuðlað þannig að vexti og viðgangi síns safns. Of langt mál yrði að telja þá alla upp en þetta eru bæði einstaklingar búsettir í sveitarfélaginu og svo burtfluttir Breiðdælingar sem bera góðan hug til sinnar sveitar. Sem dæmi má nefna að þegar bókasafnið flutti í Hellubæ í ársbyrjun 1985 þá afhentu afkomendur Sigurjóns Jónssonar frá Snæhvammi safninu að gjöf um 560 bækur úr bókasafni hans og konu hans Elínar Vigfúsdóttur, en Sigurjón sat lengi í bókasafnsnefnd og var bókavörður um tíma. Vilberg Sigtryggsson, ættaður frá Kleif, hefur um nokkurra ára skeið sent safninu bókakassa til að moða úr. Í tilefni af 120 ára afmæli safnsins í maí 1998 gaf Birgir Einarsson safninu 28 bækur eftir Halldór Laxness auk bókar um skáldið til minningar um föður hans Einar Björnsson sem fæddist sama ár og lestrarfélagið var stofnað. Nafn Einars tengist sögu félagsins því hann var bókavörður þess um tíma og á heimili hans hafði safnið aðsetur á fimmta áratug 20. aldar. Við sama tækifæri afhenti þáverandi sveitarstjóri, Rúnar Björgvinsson, safninu nýja tölvu fyrir hönd hreppsins. Þá hafa Kvenfélagið Hlíf, Landsbankinn, Verslunin Hjá Jönnu, nú Óskaup, og Búlandstindur stutt kaup á húsgögnum og hillubúnaði eftir að safnið flutti í grunnskólann. Öllum þessum aðilum verður seint fullþakkað.

Vonandi er að ráðamenn hlúi vel að þessum síunga öldungi í framtíðinni svo að safnið geti áfram verið uppspretta fróðleiks og afþreyingar fyrir notendur.

Anna Margrét Birgisdóttir

Að hluta til byggt á erindi sem flutt var 21. maí 1998 þegar minnst var 120 ára afmælis safnsins.

Heimildir:

  • Fundagerðarbækur Lestrarfélags Breiðdæla og Bókasafns Breiðdalshrepps.
  • Breiðdæla. 1948. Reykjavík, Nokkrir Breiðdælir.
  • Breiðdæla hin nýja. 1. bindi. 1986. Án útg.st., Breiðdalshreppur.